Klárar Grindavík dæmið í kvöld?

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík leikur leik nr. 2 og vonandi þann síðasta á móti Stjörnunni

í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í kvöld og fer leikurinn fram í íþróttahúsi Garðbæinga, Ásgarði og hefst kl. 19:15.

Grindavík vann leik nr. 1 á fimmtudagskvöldið og getur því tryggt sér farseðilinn í undanúrslit með sigri í kvöld.

Ég fjallaði aðeins um sigurinn í gær og fór þá fögrum orðum um leik minna manna en sem fyrr þá er ég á hafinu og verð því að treysta orðum góðra manna….  En ég þarf engin orð þegar ég lít á fjölbreytanleika stigaskorara okkar í þessum leik því menn skiptu fjórðungunum bróðurlega á milli sín, Mladen með 15 stig í fyrsta fjórðungi, Ryan með 13 í öðrum, Paxel með miðið í lagi í þriðja fjórðungi og Óli og Nick sáu svo um restina.  Það hlýtur bara að vera erfitt fyrir andstæðing okkar að eiga við svona lagað!

En við þurfum að mæta einbeittir til leiks í kvöld og gefa Stjörnumönnum engan grið.  Við búum á Íslandi og þekkjum því vel hvernig vindáttir geta breyst á augabragði, vindurinn er klárlega í bakið á okkur núna en með tapi í kvöld þá gæti sú átt hæglegt breyst!  Fyrsti leikurinn í 8-liða úrslitum er alltaf mjög hættulegur, sérstaklega fyrir liðið sem á heimaleikjaréttinn.  Öll pressa er á heimaliðinu og mjög mikilvægt að verja heimaleikjaréttinn og það tókst okkur og þ.a.l. er öll pressa komin yfir á Stjörnuna.  Látum því kné fylgja kviði í kvöld og tryggjum okkur farseðilinn í næstu umferð.

Grindvískir áhorfendur EIGA að fjölmenna á leikina í úrslitakeppninni og hjálpa liðinu sínu.  Góður stuðningur er gulls ígildi og ég segi því í lokin:

ÁFRAM GRINDAVÍK!