Kemur Íslandsmeistaratitillinn í dag??

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík og Þór Þorlákshöfn mætast þriðja sinni í kvöld kl. 19:15 í Röstinni, Grindavík.  Málið er tiltölulega einfalt, Grindavík tryggir sér sjálfan Íslandsmeistaratitilinn með sigri en Þórsarar opna seríuna upp á gátt ef þeir vinna.  Sem fyrr er boðið upp á forsölu á miðum og fer hún fram í Salthúsinu og hefst kl. 16:00.  Að sjálfsögðu fer Gauti Grindjáni í grillgallann sinn og lofar betri borgurum og skipulagi en síðast.  Má gera ráð fyrir að fyrstu borgararnir fari að rúlla um 17:00.

Fyrir leik verða Útsvars-snillingarnir okkar, þau Agnar, Daníel og Kristín heiðruð.

Þessi leikur er hættulegur fyrir þær sakir að við höfum áður verið í svona stöðu, þ.e. að vera 2-0 yfir og geta tryggt seríuna með sigri en Stjörnumenn létu það ekki gerast um daginn og unnu okkur nokkuð auðveldlega.  Við höfum líka verið í þessari stöðu áður að geta tryggt Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli en Benni Gumm og hans lærisveinar í KR, létu það ekki gerast árið 2009 og unnu okkur svo eftirminnilega í oddaleiknum í DHL-höllinni.  Þið takið eftir að Benni Gumm er aftur þjálfari og hann lærði eflaust helling af þessu árið 2009 svo það skyldi enginn afskrifa hann!

Nú var ég ekki hér um daginn þegar við gátum sópað Stjörnunni út svo ég veit ekki hvernig andrúmsloftið var, hvort fólk var bara fyrir leikinn mætt í úrslitaseríuna….  Hvenær skyldum við læra þá lexíu að þegar við mætum þannig til leiks, þá getum við ekki blautan s…..????

En ég var heldur betur staddur hér í Grindavík árið 2009 þegar við gátum tryggt okkur titilinn og var eins og við öll, kominn fram úr mér í pælingum um sigurhátíðina!  Það má bara ekki gerast núna og ef ég tala fyrir mitt leyti, þá er maður reynslunni ríkari…..  Vonandi eru allir svipað þenkjandi.  Það er einfaldlega bannað að hugsa fram yfir sjálfan leikinn, hugsa um hugsanlega sigurhátíð o.s.frv. því um leið og maður byrjar á því, þá tapar maður fókusnum á verkefninu og áður en við vitum af, erum við kannski komin í hreinan úrslitaleik um titilinn!

Svo það er mjög mikilvægt að allir mæti einbeittir til leiks og hugsi bara um þennan eina leik og ekki hvað sé í húfi.  Við áhorfendur sem höfum verið frábær hingað til, megum ekki falla á prófinu eins og á móti KR forðum!  Það var frábær stemning á fimmtudaginn í Þorlákshöfn og má segja að Græni drekinn hafi breyst í Grænu eðluna…..  Ég heyrði að í þriðja leiknum á móti Stjörnunni hafi allt of mikið púður farið í tuð út í dómaranna og sést það kannski best á þessu myndbandi hér: http://vf.is/VefTV/52585/default.aspx   hehehehehe   Það hefur verið gaman að sjá breytinguna á þessu, bæði hjá leikmönnum, þjálfurum og okkur áhorfendum.  Jákvæðnin hefur skynið í gegn og söngurinn frekar ómað.  Þessu þurfum við að halda áfram í kvöld.

Alllir hvattir til að mæta kl. 16 í dag í Salthúsið og tryggja sér miða á leikinn.  Safna orku með því að gæða sér á hamborgara.  Drekka í sig stemninguna.  Og syngja/öskra raddböndin út úr húsinu og styðja sitt lið!

Áfram Grindavík.

ps. Það myndi flýta mikið fyrir afgreiðslu ef þið getið komið við í hraðbanka og tekið út pening.