Keflavík 87- Grindavík 47

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík mátti þola stórt tap gegn Keflavík í 2. umferð Dominos deild kvenna

Hér fyrir neðan er umfjöllun karfan.is frá leiknum:

Keflavík tók á móti Grindavík í dag í Domino‘s deild kvenna þar sem heimakonur hreinlega völtuðu yfir gesti sína, 87-47. Varnaleikur Keflavíkurkvenna var frábær þegar þær komust í gang og til að mynda þá skoruðu Grindvíkingar aðeins 21 stig, þar af 11 í seinni hálfleik, eftir að hafa skorað 26 stig í fyrsta leikhlutanum.

Sigur þessi skrifast algjörlega á vörn heimakvenna þar sem þær skelltu í lás hvað eftir annað.
Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en eftir það tók Grindavík á rás þar sem þær voru að spila frábærlega á tíma. Þær virtust grimmar og ákveðnar á meðan Keflavík voru engan veginn tilbúnar í leikinn. Grindavík náði mest 12 stiga forystu í leikhlutanum, 12-24, en við það virtust Keflavíkingar vakna og komust inn í leikinn á síðustu mínútum leikhlutans sem endaði 23-26. Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir komin með 10 stig og hjá Grindavík var Dellena Criner komin með 11 stig.
 
Annar leikhlutinn byrjaði eins og sá fyrsti þar sem jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar. Um miðjan leikhlutann komst Keflavík í 31-29 og eftir það var ekki aftur snúið. Keflavík fékk á þessum tíma tvö „and1“ sem virtist kveikja vel. Grindavík var ekkert að ráða við þær hvorki í sókn né vörn þar sem vörn heimakvenna small eins og smurð vél sem leiddi til fjöldann allan af hraðaupphlaupum. Pálína var að spila mjög vel fyrir Keflavík og til að mynda stoppar hún fyrir utan þriggja stiga línuna í einu af mörgum hraðaupphlaupum Keflavíkurkvenna og smellir einum þribba eins og ekkert sé. Þegar flautað er til hálfleiks er Keflavík komið með 13 stiga forystu, 49-36. Pálína var komin með 19 stig í hálfleik og var að spila frábærlega þessar 20 mínútur. Hjá Grindavík var Criner allt í öllu sóknarlega og komin með 16 stig.
 
Í þriðja leikhlutanum héldu heimakonur áfram uppteknum hætti og héldu áfram að auka forystu sína. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir að leikhlutanum fékk Criner sína fjórðu villu eftir að Keflavík hafði fiskað tvo ruðninga á hana í leikhlutanum og hún hélt á tréverkið og þurfti að dúsa þar í nokkurn tíma. Við það virtist allt hrynja hjá Grindavík og Keflavík gekk svo sannarlega á lagið og unnu leikhlutann 20-7. Sara Rún Hinriksdóttir lék frábærlega í þessum leikhluta og var komin með 20 stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann og Pálína var með 19 stig. Hjá Grindavík var Criner komin með 19 stig.
 
Þegar komið var að fjórða leikhluta var bara spurning um hversu stór sigur Keflavíkur skildi vera. Það skipti engu hver var inná hjá Keflavík, allar voru að spila frábærlega og aldrei veiktist liðið. Þær voru með algjöra yfirburði í leiknum og sá Grindavík aldrei til sólar eftir góða byrjun í fyrsta leikhluta. Leikurinn var orðinn að algjöri einstefnu og endaði með að Keflavík vann verskuldað með 40 stiga mun, 87-47.
 
Stigahæstu leikmenn Keflavíkur:
Sara Rún Hinriksdóttir 20 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Pálína Gunnlaugsdóttir 19 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Jessica Jenkins 12 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Ingunn Embla Kristínardóttir 11 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Stigahæstu leikmenn Grindavíkur:

Dellena Criner 19 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Helga Hallgrímsdóttir 10 stig og 10 fráköst. Petrúnella Skúladóttir 8 stig og 4 fráköst. 

 

Mynd hér að ofan frá Víkurfréttum þar sem hægt er að sjá myndasafn úr leiknum