Kærar þakkir

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Það fór ekki eins og við vildum í gær í Laugardalshöllinni 

 

og þurfum við að bíta í það súra epli að hafa tapað tveimum úrslitaleikjum í röð, eftir að hafa unnið fyrstu fjóra.  Ég var ansi bjartsýnn í hálfleik og hélt að við værum að reka af okkur slyðruorðið en því fór víðs fjarri og sama hörmungarspilamennskan tók sig upp í síðari hálfleik og má segja að KR-ingar hafi niðurlægt okkur þá.  Greinilegt að eitthvað mikið er að í liðinu og ljóst að Helgi þarf að grafa djúpt til að finna lausn á vandamálunum.

 

Ekki orð meira um sjálfan leikinn. 

 

Ég vil fyrir hönd Körfuknattleiksdeildar UMFG þakka stuðningsmönnum og styrktaraðilum, kærlega fyrir allt varðandi þennan bikarúrslitaleik.  Við gáfum út glæsilegasta bikarblaðið til þessa og því ber að þakka frábærum styrktaraðilum.  Grindvíkingar fjölmenntu í sínum gula fallega lit í Laugardalshöllina og höfum við fengið hrós frá fjölmiðlum og meira að segja leikmönnum KR, fyrir stuðning okkar.  Við ÁTTUM stúkuna þangað til ca 3 mínútur lifðu leiks og KR komið með rúmlega 20 stiga forskot, þá loksins byrjuðu KR-ingarnir að hvetja…

Körfuknattleiksdeild UMFG ákvað að bjóða leikmönnum, stjórnarmönnum, mökum og helstu styrktaraðilum, í mat hjá Láka á Salthúsinu og klikkaði meistarakokkurinn og ljúflingurinn Láki ekki frekar en fyrri daginn.  Fjölmargir gerðu sér síðan ferð í Salthúsið eftir miðnætti og mættu á ball með Geimförunum og úr varð gott stuð.

Nú er bara að koma þessum vonbrigðum út úr kerfinu og mæta brjálaðir í lokabaráttuna.  Við vitum öll hvað býr í liðinu okkar og er ég viss um að Helgi Jónas mun finna leiðina út úr þessari kreppu sem við erum í núna.  Við setjum stefnuna á að vinna síðustu 4 leikina í deildinni og ætti það að duga í 2.sætið.  Svo förum við á bullandi siglingu inn í úrslitakeppnina og…..

 

Körfuknattleiksdeild UMFG þakkar öllum enn og aftur fyrir stuðninginn.

Áfram Grindavík!