Jón Axel valinn íþróttamaður ársins hjá Davidson

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson hlaut mikla viðurkenningu í gær þegar hann var valinn íþróttamaður ársins í Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum.

Skólinn teflir auðvitað fram íþróttafólki í ýmsum greinum, undir heitinu Davidson Wildcats, en frammistaða Jóns Axels á lokatímabili hans með körfuboltaliðinu stóð upp úr hvað karlkyns fulltrúa skólans varðar.

Jón Axel kveður Davidson sem einn af merkustu leikmönnum í sögu körfuboltaliðsins en á tíma sínum hjá skólanum var hann til að mynda valinn leikmaður ársins í Atlantic 10 riðlinum í fyrra. Hann er eini leikmaður í sögu Davidson sem náð hefur yfir 1.000 stigum, 500 fráköstum og 500 stoðsendingum, og er í hópi tíu stigahæstu leikmanna í sögu skólans.

UMFG óskar Jóni Axel hjartanlega til hamingju með útnefninguna.