Jón Axel snýr aftur í Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Jón Axel Guðmundsson hefur skrifað undir samning við Grindavík og mun leika með félaginu í Subwaydeild karla út leiktíðina. Þetta eru risatíðindi fyrir körfuboltann í Grindavík en Jón Axel er einn besti körfuknattleiksmaður landsins og er lykilmaður í íslenska landsliðinu.

Jón Axel er 25 ára gamall og hefur leikið í atvinnumennsku í Þýskalandi og Ítalíu undanfarin tvö ár. Árin þar á undan var hann í háskólakörfuboltanum hjá Davidson háskólanum við afar góðan orðstír.

„Þetta eru frábær tíðindi fyrir okkur hjá Grindavík að Jón Axel hafi tekið ákvörðun um að spila með okkur í vetur,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. „Jón Axel mun styrkja okkar lið verulega og ég er gífurlega spenntur að vinna með honum. Hann hefur æft með okkur undanfarnar vikur og lítur vel út. Ég held að allir Grindavíkingar séu í skýjunum með að fá Jón Axel aftur heim í Grindavík.“

Jón Axel er kominn með leikheimild og verður með liði Grindavíkur í næsta leik gegn Keflavík annað kvöld.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur fagnar því að fá Jón Axel aftur til félagsins og vonum við að stuðningsmenn félagsins fjölmenni á leiki í vetur til að fylgjast með kappanum í gulu í HS Orku Höllinni.

Áfram Grindavík!