Jóhann Þór tekur á ný við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Jóhann Þór Ólafsson hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari Grindavíkur í Subwaydeild karla og mun hann stýra félaginu á næstu leiktíð. Jóhann Þór stýrði liði Grindavíkur á árunum 2015 til 2019 og fór liðið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2017 undir hans stjórn.

Jóhann Þór var aðstoðarþjálfari hjá Grindavík í vetur og er öllum hnútum kunnugur í starfi félagsins. Hann var einnig aðstoðarþjálfari félagsins árið 2013 þegar félagið hampaði síðast Íslandsmeistaratitlinum og bikartitlinum árið 2014.

„Við erum mjög glöð að fá Jóhann Þór í starf þjálfara liðsins og væntum mikils af honum. Jóhann er mjög fær þjálfari og það eru frábærar fréttir að hann sé að snúa aftur í þjálfun af fullum krafti,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

„Það er spennandi vetur framundan í Grindavík. Við erum að færa okkur á nýjan og glæsilegan keppnisvöll og það ríkir mikil eftirvænting fyrir því að hefjast handa,“ segir Jóhann Þór.

Ekki er búið að ganga frá því hver verður aðstoðarmaður Jóhanns á komandi tímabili en það verður tilkynnt í náinni framtíð. Frekari frétta er að vænta af leikmannamálum hjá karlaliði félagsins á næstu dögum.

Þess má geta að bróðir Jóhanns Þórs, Þorleifur Ólafsson, stýrir kvennaliði félagsins í Subwaydeild kvenna.

Áfram Grindavík!