Grindavík hefur samið við spænska framherjann Javier Valeiras og mun hann leika með liðinu út leiktíðina í Subwaydeild karla. Javier er 23 ára gamall og er 203 cm á hæð. Hann útskrifaðist úr Gannon Nights háskólanum á síðasta ári en hefur einnig leikið fyrir ungmennalið Badajoz í EBA-deildinni á Spáni.
„Javi er stekur framherji sem er að taka sín fyrstu skref sem atvinnumaður. Við vorum að leita af leikmanni sem gæti veitt okkur meiri dýpt í framherjastöðunni,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur.
„Javi kemur til með að styrkja okkur í frákastabaráttunni og í varnaleiknum. Hann er með ágætt skot og passar vel inn í okkar leikkerfi. Ég hlakka til að byrja að vinna með Javi tel að koma hans muni hafa jákvæð áhrif á lið Grindavíkur.“
Þess má geta að Javier Valeiras og Ivan Aurrecoechea þekkjast vel en þeir voru saman hjá Indian Hills skólanum í Bandaríkjunum.