Jarðtenging

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík er komið í ákjósanlega stöðu í úrslitaeinvíginu á móti Þór Þorlákshöfn um Íslandsmeistaratitilinn, eftir frábæran sigur í Þorlákshöfn í gærkvöldi.

Bæði liðið og stuðningsmenn höfðu betur gegn Þorlákshafnarbúum og nú er bara að klára dæmið á sunnudag í Röstinni!

Liðið var einfaldlega frábært í gær, allir leikmenn skiluðu sínu og enginn steig feilspor.  Allir fengu að spila og menn ættu að vera með nokkuð ferska fætur fyrir 3. leikinn á sunnudag.  Þið eruð eflaust búin að horfa á leikinn aftur, lesa öll viðtöl og umfjallanir um leikinn svo ég ætla ekkert að eyða allt of miklu púðri í hann.  Bullock okkar besti maður að mínu mati, alveg hreint magnaður leikmaður!  Mörg viðurnefni hefur hann fengið í vetur en ég held það besta hafi komið í gær á Rás 2 þegar Doddi litli Njarðvíkingur talaði við Jón Björn á karfan.is og Íslenska boltanum, Nonni talaði um Bullock eins og svindlmann í tölvuleikjum….. hehehe.

Leikmenn stóðu sig frábærlega og það gerðuð þið kæru stuðningsmenn líka!  Aftur fékk Græni drekinn að lúta í gras og við Grindjánar erum einfaldlega frábærir stuðingsmenn þegar sá gállinn er á okkur.  Við svöruðum gagnrýni Helga Jónasar á okkur, þ.e. að þegar herðir að þá þurfum við að stíga upp á pöllunum.  Þórsarar gerðu gott áhlaup í byrjun seinni hálfleiks og sneru 10 stiga mínusstöðu í 2. stiga +stöðu en allan þann tíma létum við vel í okkur heyra.  Kannski hugsuðu fleiri eins og ég og voru tiltölulega rólegir, ég þóttist vita að mínir menn myndu komast í gang aftur og sú varð raunin.  13-0 áhlaup kom okkur aftur yfir og mig minnir að Ryan nokkur Pettinella hafði klárað það áhlaup með tröllatroðslu beint úr frákasti!  Frábær leikmaður!  Það var virkilega gaman hjá okkur stuðningsmönnunum og punkturinn settur yfir i-ið þegar við sungum öll “Græni dreki, græni dreki hvar ert þú?…..” 🙂  Gaman að þessu.

En nú er mjög mikilvægt að allir haldi jarðtengingunni og mæti brjálaðir til leiks á sunnudaginn!  Það er einfaldlega bannað að hugsa fram yfir þennan leik!  Það á bara að hugsa um sjálfan leikinn, á nákvæmlega sama máta og við höfum gert núna undanfarið.

Við vorum í nákvæmlega sömu stöðu á móti Stjörnunni í undanúrslitunum og gátum tryggt okkur farseðilinn í úrslitin með sigri á heimavelli.  Við féllum á því prófi en kláruðum sem betur fer í 4. leik.  Eitthvað klikkaði þarna því við vorum víst flatir allan þann leik og létum dómarana fara í taugarnar á okkur.  Töpuðum því sannfærandi.

Árið 2009 gátum við tryggt okkur titilinn á heimavelli á móti KR.  ALLIR féllu illilega á því prófi, sama hvort það voru þjálfarar, leikmenn eða stuðningsmenn.

Við megum ekki og ætlum ekki að láta þessa sögu endurtaka sig.  Því er nauðsynlegt að ALLIR haldi jarðtengingunni og mæti með sama hungrið á sunnudaginn.  Titillinn er langt í frá kominn þótt einungis þurfi 1 sigur í viðbót.  Svona sería getur snúist við á augabragði og ef Þór stelur sigri þá fá þeir fítonskraft fyrir sinn heimaleik og ef þeir myndu vinna hann þá er bara hreinn úrslitaleikur!  Það ætlum við ekki að láta gerast og mætum því brjáluð til leiks á sunnudaginn!

Forsala og grillið verður betur auglýst síðar en líklegt er að byrjað verði um kl. 16:00 við Salthúsið og eru ALLIR GRINDVÍKINGAR hvattir til að koma og taka þátt í baráttunni!

Áfram Grindavík!