Jafnt í einvíginu

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Einvígi Grindavík og Þórs í 8 liða úrslitum Dominosdeild karla er jöfn eftir sigur Þórsara í gær 98-89.

Það var fyrst og fremst lélegur fyrri hálfleikur sem lagði grunninn að tapi Grindavíkur því heimamenn leiddu með 14 stigum í hálfleik.

Okkar menn komu sterkir til baka í þriðja leikhluta og komust yfir í stutta stund í fjórða leikhluta.  Það dugði ekki til þar sem Þór var sterkari á lokamínútunum þegar stóru mennirnir hjá Grindavík voru komnir með 5 villur.

Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá Grindavík með 21 stig.

Þorleifur fór meiddur af velli og í viðtali eftir leikinn sagði Sverrir þjálfari að líkur séu að þetta séu krossbandameiðsl sem væri áfall fyrir liðið þar sem Lalli hefur spilað einstaklega vel í síðustu leikjum.

Þriðji leikurinn er á fimmtudaginn og mikilvægt fyrir Grindavík að vinna hann og komast aftur yfir í einvíginu. Leikurinn hefst klukkan 19:15 en ráðlagt að mæta tímanlega því nú er komið að því að fjölmenna í húsið.