Það var smá beygur í mér fyrir leik kvöldsins þrátt fyrir að Grindavíkurliðið hafi verið taplaust.
Við höfum ekki verið að rúlla andstæðingum okkar upp til þessa og þar sem búast mátti við alvöru mótspyrnu í kvöld, þá gerði ég allt eins ráð fyrir að fyrsta tap tímabilsins yrði staðreynd. Sú varð heldur betur ekki raunin…….
Strax frá fyrstu mínútu var ljóst hvoru megin sigurinn myndi enda. Varnarleikur okkar var hreint út sagt frábær og áttu KR-ingar einfaldlega ekki roð í okkur. Þeir skoruðu heil 10 stig í fyrsta leikhluta og bættu svo öðrum 17 við í öðrum. Leikurinn varð síðan aldrei neitt spennandi og lokatölur 59-85. Að halda tvöföldum meisturum síðasta árs, sjálfu Vesturbæjarstórveldinu KR, í 59 stigum á þeirra heimavelli, segir allt sem segja þarf um okkar frábæra varnarleik í kvöld. Sóknin var líka fín oft á tíðum og hefði ekki verið fyrir afleita vítanýtingu (58,3%) þá hefðum við líklega farið yfir hin heilögu 100 stig…
Hvar skal fyrst bera niður þegar lofsyngja skal leikmenn okkar fyrir frammistöðu kvöldsins??? Bullock fékk sennilega flest fögnin en hann var frábær í kvöld og verður betri með hverjum leiknum sem líður. Þegar ég sá hann fyrst, fljótlega eftir að hann var kominn, þá hugsaði ég með mér að hann væri nú kannski ekki neinn háloftafugl sem myndi gleðja okkur með troðslum. Hann stakk því rækilega ofan í kok á mér í kvöld! Það nötraði nánast allt íþróttahúsið eftir þvílíka tröllutroðslu hjá honum en það hlýtur að vera ömurlegt fyrir andstæðinginn að dekka þennan gaur! Hann er að verða mjög hittinn fyrir utan en í kvöld setti hann t.d. 3/5 3-stiga skotum sínum niður. Þegar hann ógnar svona þurfa menn að vera nær honum og þar sem hann er skruggufljótur þá er voðinn vís eins og Finnur KR-ingar fékk að finna fyrir þegar Bullock fór auðveldlega fram hjá honum og hamraði tuðrunni í gegnum hringinn! J´Nath var stigahæstur og og frákastahæstur í kvöld með 25/9 en henti auk þess 3 stoðsendingum inn í jöfnuna.
Giordan Watson er að mínu mati einn sá ef ekki sá besti leikmaður deildarinnar. Algerlega frábær leikstjórnandi sem sér til þess að liðið skori, fyrst með því að koma félögum sínum inn í leikinn en ef þeir eru í vandræðum með það, þá tekur hann af skarið. Baneitraður með hittni sinni fyrir utan og hraða sem fáir leikmenn ráða við. Í kvöld setti hann 18 stig og gaf 5 stoðsendingar. Ég hlakka til að sjá kappann í jöfnum leik þar sem virkilega reynir á hann en til þessa hefur tímabilið bara verið göngutúr í skemmtigarðinum…
Allir sem spiluðu eitthvað að ráði, skiluðu sínu. Þeir voru kannski ekki allir á fjölinni sinni skotlega séð en eitthvað hljóta þeir að hafa lagt til málanna í varnarvinnunni. Stigahæsti Íslendingurinn var Ómar með 12 stig og Paxel smellti 11 stigum.
Liðið okkar var frábært í kvöld og er eins og áður hefur komið fram, taplaust í vetur. Þó höfum við ekki alltaf verið að spila neinn dúndurbolta en samt unnið og það er merki um góð lið. En við skulum ekki gleyma því að fyrir nánast nákvæmlega ári síðan, þá vorum heitasta liðið á landinu. Við unnum KR hér heima sannfærandi og á þeim tíma var Ryan Pettinella kóngurinn í teignum, Jeremy Kelly var á leiðinni að verða einn allra besti útlendingur deildarinnar, allir heimamenn voru að skila sínu og við vorum einfaldlega á svakalegu skriði. Svo lentum við í hrakningum sem tóku ekki enda allt tímabilið og því fór sem fór. Því skulum við halda jarðtengingunni áfram.
Nú fer deildin í frí og við tekur Lengjubikarinn. Síðasti leikurinn í riðlinum er á mánudaginn kl. 19:15 á heimavelli á móti Haukum en við höfum nú þegar tryggt okkur farseðilinn í “final four” sem fram fer um næstu helgi. Þá verður leikið í undanúrslitum á föstudegi og til úrslita á laugardeginum. Vonandi verðum við þar og tökum annan titil tímabilsins!
Áfram Grindavík!