Grindavík var rétt í þessu Íslandsmeistari í 9.flokki drengja þegar þeir sigruðu Njarðvík 43-40
Myndin hér fyrir ofan er fengin frá karfan.is sem voru á staðnum og hér fyrir neðan er umfjöllun Jóns af leiknum. Glæsilegur árangur hjá strákunum og myndin hér keimlík myndinni í næstu frétt á undan því sömu strákar voru bikarmeistarar. Stákarnir hafa lagt grunninn að Íslandsmeistaradegi og er það óskandi að stelpurnar og svo meistaraflokkur karla fylgi eftir í dag.
Stelpurnar í 10. flokki stúlkna spilar til úrslita klukkan 12:00 við Keflavík.
“Grindvíkingar eru Íslandsmeistarar í 9. flokki eftir 43-40 spennusigur á Njarðvíkingum í DHL-Höllinni í vesturbænum. Leikurinn var hnífjafn og lokaspretturinn æsilegur en gulir Grindvíkingar stóðust áhlaup Njarðvíkinga hömpuðu loks þeim stóra þar sem Hilmir Kristjánsson var valinn besti maður leiksins með 14 stig, 21 frákast, 6 varin skot og 3 stolna bolta. Þá var Ragnar Friðriksson skæður í Njarðvíkurliðinu með 18 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
Grindvíkingar mættu klárir í slaginn og gerðu fimm fyrstu stig leiksins áður en Ragnar Friðriksson kom Njarðvíkingum á blað. Gulir Grindvíkingar voru mun ákveðnari í frákastabaráttunni og það skilaði sér í 6-15 forystu Grindavíkur að loknum fyrsta leikhluta þar sem Aðalsteinn Pétursson og Hilmir Kristjánsson voru báðir með 6 stig í liði Grindvíkinga og Hilmir þar að auki með 7 fráköst.
Adam Eiður Ásgeirsson kom sterkur af Njarðvíkurbekknum inn í annan leikhluta og minnkaði muninn í 11-17 með þriggja stiga körfu og Njarðvíkingar skelltu sér í svæðisvörn. Grindvíkingar fóru fyrir vikið að skjóta meira fyrir utan með dræmum árangri og fyrir vikið komust Njarðvíkingar betur inn í frákastabaráttuna.
Hilmir Kristjánsson var drjúgur í fyrri hálfleik fyrir Grindavík með 8 stig og 13 fráköst á meðan Njarðvíkingar áttu eftir að fá Kristinn Pálsson í gang, Kristinn var með 10 fráköst í hálfleik en var ekki búinn að skora.
Grindavík leiddi 20-23 í hálfleik þar sem Hilmir var með 8 stig og 13 fráköst en Adam Eiður 7 stig og 4 fráköst í Njarðvíkurliðinu eins og Ragnar Friðriksson sem einnig var með 3 stoðsendingar.
Kristinn Pálsson jafnaði metin í 24-24 fyrir Njarðvík eftir sóknarfrákast og þar með gerði þessi sterki leikmaður sín fyrstu stig í leiknum. Njarðvíkingar komust svo yfir 26-24 og þar með 6-1 byrjun grænna á síðari hálfleik á meðan gulir fóru óvarlega með boltann og sættu sig frekar við langskot gegn svæðisvörn Njarðvíkinga heldur en að sækja í teiginn.
Hilmir Kristjánsson kom Grindavík í 26-27 með þriggja stiga körfu eftir næstum fimm mínútna leik í síðari hálfleik. Grindvíkingar rönkuðu svo við sér á lokaspretti þriðja leikhluta þar sem Aðalsteinn Pétursson var ógnandi en rofa fór til í sóknarleiknum hjá gulum um leið og þeir fóru að sækja í teiginn.
Atli Karl Sigurbjartsson jafnaði metin fyrir Njarðvík í 32-32. Næsta Grindavíkursókn fór í súginn og Njarðvíkingar reyndu fyrir sér í lokasókninni sem vildi ekki niður. Eitthvað áttu grænir órætt við dómara leiksins og fengu þeir dæmt á sig tæknivíti fyrir vikið þar sem Hilmir Kristjánsson kom Grindavík í 32-33 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Varnarleikurinn var í oddinum í fjórða leikhluta, lítið var skorað en Ragnar Friðriksson færði Njarðvíkinga nærri 37-38 með þriggja stiga körfu um leið og skotklukkan rann út. Grindvíkingar svöruðu strax í næstu sókn áður en Adam Eiður jafnaði fyrir Njarðvík með þrist og staðan 40-40 þegar rúm ein og hálf mínúta var til leiksloka.
Grindvíkingar komust í 40-42 og á lokasprettinum virtust liðin ekki geta keyptu körfu, 36 sekúndur voru eftir þegar sniðskot Njarðvíkinga geigaði og þeim tókst því ekki að jafna, næsta Grindavíkursókn fór í súginn þegar 21 sekúnda var eftir og þegar 14 sekúndur voru til leiksloka hafði Njarðvíkingum ekki tekist að skora og Grindvíkingar búnir að vinna boltann.
Njarðvíkingar sendu þá Kristófer Breka Gylfason á vítalínuna þegar fimm sekúndur voru eftir og hann setti niður fyrra vítið en brenndi af því síðara og staðan því 43-40 fyrir Grindavík þegar 5 sekúndur voru til leiksloka. Njarðvíkingar brunuðu í sókn, Grindvíkingar voru klókir og brutu enda Njarðvíkingar ekki komnir með skotrétt. Njarðvík átti því innkast og hafði rúmar tvær sekúndur til að ná erfiðu þriggja stiga skoti sem vildi ekki niður og því fögnuðu Grindvíkingar sigri eftir mikinn og góðan slag liðann í DHL-Höllinni.
Hilmir Kristjánsson var eins og áður segir valinn besti maður leiksins með 14 stig, 21 frákast, 6 varin skot og 3 stolna bolta. Aðalsteinn Pétursson bætti svo við 15 stigum og 9 fráköstum og Rúnar Örn Ingvarsson gerði 6 stig og tók 5 fráköst. Ragnar Friðriksson var með 18 stig og 7 fráköst í liði Njarðvíkinga og Adam Eiður Ásgeirsson bætti við 10 stigum og 4 fráköstum. Þá var Kristinn Pálsson með 2 stig og 17 fráköst.
Gangur leiksins:
6-15, 20-23, 32-33 og 40-43 “