Íslandsmeistarar í 11. flokki

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Sameiginlegt lið Grindavíkur og Þór frá Þorlákshöfn var í gær Íslandsmeistari í 11 flokki karla.  Við óskum strákunum og Jóhanni Árna Ólafssyni, þjálfara liðsins, til hamingju með frábæran árangur.

Umfjöllun karfan.is af leiknum:

“Sameiginlegt lið Grindavíkur og Þórs úr Þorlákshöfn er Íslandsmeistari í 11. flokki karla eftir sigur á Breiðablik í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum í Kópavogi. Um sögulegan sigur var að ræða þar sem sameiginlegt lið úr Grindavík og Þorlákshöfn verður Íslandsmeistari í yngri flokkum í fyrsta sinn! Um öflugan slag sterkra liða var að ræða en Grindavík/Þór hafði öll spilin á höndum sér í fjórða leikhluta með þá Halldór Hermannsson og Hilmi Kristjánsson fremsta í flokki. Lokatölur 75-64 Grindavík/Þór í vil þar sem Hilmir Kristjánsson var valinn besti maður leiksins með 23 stig og 17 fráköst.

Blikar voru fastir fyrir í upphafi leiks og héldu Grindavík/Þór stigalausum fyrstu þrjár mínúturnar. Varnarleikur beggja liða var reyndar þéttur því staðan var aðeins 6-5 fyrir Blika eftir fimm mínútna leik. Breki Gylfason og Snorri Vignisson reyndust Grindavík/Þór illir í kringum körfuna og heimamenn í Kópavogi leiddu 17-16 eftir fyrsta leikhluta þrátt fyrir að Grindavík/Þór hafi átt lokaorðið í leikhlutanum með körfu í teignum um leið og fyrsti leikhluti rann sitt skeið. Þá reyndist fyrsti leikhluti Grindavík/Þór nokkuð dýr því baráttujaxlinn Halldór Hermannsson fékk þar sína þriðju villu.

Grindavík/Þór kunni vel að meta að Blikar skyldu mæta með svæðisvörn snemma inn í annan leikhluta og komust í 19-22. Ingvi Guðmundsson var ógnandi í liði Grindavík/Þór en hafði ekki nægilegar gætur á boltanum og tapaði honum 8 sinnum allan fyrri hálfleikinn. Hilmir og Ingvi voru mest ógnandi í liði gestanna en hjá Blikum voru fleiri að láta til sín taka sem er jú heillavænlegra til lengri tíma. Halldór Hermannsson kom svo inn í lið Grindavík/Þór eftir að hafa eytt sjö mínútum á tréverkinu og viðbúið að hann myndi ekki vera með sinn vanalega hamagang í vörninni á þremur villum.

Blikar settu sína eigin syrpu í gang, settu 10-2 áhlaup á gesti sína og leiddu svo 31-29 í leikhléi. Skotnýting liðanna svo sem lítið til að hrópa húrra yfir í fyrri hálfleik en Ingvi leiddi Grindavík/Þór með 13 stig í hálfleik og miðherjinn Breki Gylfason var með 12 stig hjá Blikum.

Aron Brynjar Þórðarson opnaði síðari hálfleikinn með hvell fyrir Blika er hann skellti niður þrist en hvarf síðan frá strax í næstu sókn Grindavík/Þór þar sem hann fékk sína fjórðu villu. Blikar gáfu þó ekkert eftir heldur náðu upp 39-29 forskoti eftir aðra þriggja stiga körfu og nú frá Snorra Vignissyni.

Grindavík/Þór lét ekki skilja sig eftir og leiddi Halldór Hermannsson endurkomu þeirra en í tvígang jafnaði hann metin á lokaspretti þriðja leikhluta, fyrst er hann jafnaði 47-47 og aftur 49-49 um leið og leikhlutinn rann sitt skeið og mikilvægt fyrir Grindavík/Þór að fá Halldór í takt við leikinn á ný. Jafnt fyrir fjórða og síðasta leikhluta og von á spennusprett síðustu 10 mínútur leiksins.

Halldór Hermannsson tók við keflinu þegar allt var í járnum og hafði lítinn áhuga á því að láta það frá sér. Grindavík/Þór opnaði fjórða leikhluta með 7-0 hvelli og Jón Þráinsson bætti við þrist sem kom Grindavík/Þór í 59-51, Halldór bætti svo við enn einu glerhörðu gegnumbroti og skömmu síðar þrist og gestirnir komnir með 12 stiga forystu, 53-65 þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka, Blikar beygðir.

Hilmir Kristjánsson braut síðan Blika endanlega þegar hann skellti niður þrist með rétt rúmar þrjár mínútur til leiksloka og kom Grindavík/Þór í 56-68. Blikar jöfnuðu sig ekki eftir þennan og Grindavík/Þór kláraði leikinn 64-75.

Hilmir Kristjánsson var með 23 stig og 17 fráköst í liði Grindavík/Þór, þeir Halldór Hermannsson og Ingvi Guðmundsson bættu báðir við 14 stigum, Halldór með 9 fráköst og 8 stoðsendingar til viðbótar og Ingvi með 10 fráköst. Þá var Jón Þráinsson með 13 stig og 7 fráköst. Hjá Breiðablik var Breki Gylfason með 22 stig og 20 fráköst og Brynjar Ævarsson bætti við 10 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum.”

 

Myndir á karfan.is eftir Jón Björn