ÍR 105 – Grindavík 99

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík tapaði sínum öðrum leik í Dominosdeildinni í gær þegar ÍR fór með sigur í Hertz hellinum

Leikurinn var jafn og skemmtilegur frá fyrstu mínútu og undir lokin munaði 6 stigum á liðunum 105-99.

Stigahæstir hjá Grindavík voru Zeglinski og Jóhann.  Á karfan.is er að finna fína umfjöllun um leikinn sem er hér fyrir neðan:

Íslandsmeistarar Grindavíkur gerðu sér ferð í Breiðholtið í kvöld og heimsóttu ÍR í Hertz Hellinn. Heimamenn þurftu að rétta úr kútnum eftir frekar slakan leik í Borgarnesi, þar sem þeir áttu þó möguleika á að stela sigri en Skallagrímsmenn létu ekki bugast í Fjósinu og mörðu fram sigur, 80-71. Meistararnir aftur á móti höfðu lagt Njarðvíkinga með sannfærandi hætti á heimavelli, 107-81 og mættu því í Hellinn fullir sjálfstrausts.

 
Fyrir leik voru Breiðhyltingarnir í 9. Sæti Domino’s deildarinnar með 2 stig, enda aðeins unnið einn af fjórum leikjum sinum. Grindvíkingar í efsta sæti deildarinnar með 6 stig. Það var ekki eini stigamunurinn á liðunum, því gestirnir eru að skora rúmum 18 stigum meira að meðaltali í leik. Fram til þessa Það var því á brattann að sækja fyrir heimamenn.
 
Bæði lið byrjuðu af hörku og börðust frá fyrstu mínútu. Heimamenn ætluðu greinilega ekki að leyfa meisturunum að eiga auðveldan leik og byrjuðu betur en Grindavík komst þó yfir þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta, en Suðurnesjamenn gripu hvert frákastið á fætur öðru sem varð til þess að þeir smám saman tóku leikinn í sínar hendur. Það var eins og heimamenn væru með ofnæmi fyrir fráköstum.
 
Jón Arnar, þjálfari ÍR, tók leikhlé til að endurstilla leik sinna manna í stöðunni 18-27, fyrir Grindavík þegar tvær mínútur voru eftir. Grindavík virtist ætla að sigla fram úr, en ÍR hertu varnarleik sinn og tókst gestunum ekki að skora það sem eftir lifði leikhlutans. 21-27 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta.
 
Gestirnir byrjuðu annan leikhlutann af krafti og lágu tveir þristar á skömmum tíma og voru nú með 9 stiga forystu. Heimamenn létu þá hinsvegar ekki sleppa frá sér og söxuðu smám saman á forskotið. En þá fóru skotin að geiga hjá Breiðhyltingum og komust Grindvíkingar aftur í þægilega stöðu, þar til Hreggviður Magnússon setti niður þrist til að laga stöðu ÍR-inga. Það dugði þó stutt þar sem Björn Brynjólfsson og Þorleifur Ólafsson jörðuðu sitthvoru langskotinu og leiddu Grindvíkingar 44-52 í hálfleik.
 
Stigaskorun skiptist jafnt á milli manna í fyrri hálfleik. Hjá Grindavík var Sigurður Gunnar Þorsteinsson stigahæstur með 11 stig og þeir Jóhann Árni Ólafsson og Aron Broussard með 10 stig hvor. Broussard var þar að auki með 6 fráköst. Eric Palm var með 12 fyrir ÍR og D’Andre Williams 9 stig og 3 stolna bolta.
 
Það var nokkuð ljóst að ef Hellisbúarnir ætluðu að koma sér inn í leikinn aftur þá þyrftu þeir að taka sig á í fráköstunum, en Grindvíkingar höfðu tekið 26 fráköst í hálfleik, á móti aðeins 13 heimamanna.
 
Greinilegt var að fyrirskipun heimamanna var að herða sig í fráköstum og var baráttuviljinn meiri í þeirri deildinni strax í upphafi seinni hálfleiks. Vörnin var stífari og skyndilega var leikurinn jafn og Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé í stöðunni 55-55. Vindurinn blés með heimamönnum og sem voru nú komnir með yfirhöndina á ný og komust í 8 stiga forystu eftir 17-3 kafla, þar sem Eric Palm fór fyrir sínum mönnum á báðum endum vallarins og var hreint út sagt magnaður. Gestirnir virtust ráðalausir.
 
Meistararnir létu þó ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu leikinn 68-68 þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta. Varnarleikurinn var hertur og einbeitingin betri en fyrstu 8 mínútur síðari hálfleiks þar sem allt virtist ganga upp hjá ÍR.
 
ÍR komu sér í vænlega stöðu eftir rúmar 3 mínútna leik í fjórða leikhluta með flautuþrist frá Sveinbirni Claessen og öðrum þrist frá Nemanja Sovic. Hreggviður fékk sér svo sopa úr æskubrunninum og tróð boltanum til að koma heimamönnum í 9 stiga forystu við mikinn fögnuð áhorfenda. Gestirnir svöruðu en Nemanja setti svo enn einn þrist niður fyrir heimamenn. Staðan orðin 90-80 fyrir ÍR.
 
Stórskotahríð heimamanna og þá sér í lagi Nemanja Sovic hélt áfram eftir að Grindavík hafði sett niður þrist og virtist sem svo að leikurinn væri ÍR-inga. En ekki skal efast um meistarana og hertu þeir varnarleik sinn og reyndu að komast inn í leikinn. Samuel Zeglinski setti niður þrist alla leið frá Mjóddinni virtist vera, en Sovic lét ekki kuldann úti hafa áhrif á sig, því hann var funheitur. Enn einn þristurinn söng í netinu. Zeglinski svaraði með öðrum þrist og var komin gríðarleg spenna í leikinn þegar rétt tæp mínúta var til leiksloka.
 
ÍR-ingar höfðu tækifæri á að gera út af við leikinn, en Þorvaldur fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar 40 sekúndur voru eftir og staðan 101-95. Grindavík hafði boltann og því í kjörstöðu til að galopna leikinn, en heimamönnum tókst með baráttu og þrautseigju að landa sigrinum. Lokatölur 105-99 í stórskemmtilegum leik sem var opinn og spennandi allan tímann.
 
Það má með sanni segja að það hafi verið Nemanja Sovic sem átti heiðurinn af þessum sigri heimamanna, eftir að Eric Palm hafði leitt liðið framan af og haldið þeim inni í leiknum. Sovic var stórkostlegur í fjórða leikhluta, landaði hverjum þristinum á fætur öðrum og var sterkur í frákastabaráttunni. Sovic endaði með 24 stig, setti alla 5 þristana sína niður og tók 7 fráköst. Palm var þó stigahæstur allra með 35 stig, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta. D’Andre Williams var með 14 stig og 10 stoðsendingar. Heimamenn höfðu þar að auki betur í frákastabaráttunni í seinni hálfleik, tóku 19 gegn 12 fráköstum Grindvíkinga og átti það einnig sinn þátt í þessum sigri.
 
Hjá gestunum var Samuel Zeglinski stigahæstur með 28 stig en hann setti 6 af 11 þristum sínum niður. Jóhann Árni Ólafsson kom næstur með 24 stig og 4 fráköst,”