Hulda Björk skrifar undir nýjan samning

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Hulda Björk Ólasdóttir hefur gert nýjan eins árs samning við Grindavík og mun leika með félaginu í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á komandi tímabili. Hulda er 18 ára gömul og var lykilmaður í liði Grindavíkur sem vann sér sæti í efstu deild kvenna á síðasta tímabili.

Hulda var með 15,1 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili og tók 4,3 fráköst.

„Það er mjög ánægjulegt að við séum að halda í þennan góða kjarna af uppöldu leikmönnum sem er til staðar hjá Grindavík. Hulda er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og frábær liðsmaður. Ég hef fulla trú á að Hulda Björk muni halda áfram að bæta sig og verði í stóru hlutverki fyrir félagið á komandi tímabili,“ segir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

KKD. Grindavíkur lýsir yfir mikilli ánægju með að gera nýjan samning við Huldu Björk og hlökkum við til að sjá hana á parketinu í vetur.