Næstsíðasta umferð Iceland Express deildar karla hefst í kvöld
með 3 leikjum. Snæfell – Hamar, ÍR – KR og KFÍ – Njarðvík. Á morgun stígum við svo inn á sviðið er við mætum Fjölni á heimavelli en þá mætast líka Tindastóll – Keflavík og Stjarnan – Haukar. Það voru Stjörnumenn og Fjölnir sem gerðu lítið úr spádómsgáfu minni í síðustu umferð en við skulum sjá hvað setur og ég ætla að spá fyrir um úrslit og rýna aðeins í leikina. Hér kemur fyrst staðan í deildinni:
Snæfell 16/4
KR 15/5
Grindavík 14/6
Keflavík 14/6
Stjarnan 11/9
ÍR 9/11
Njarðvík 9/11
Haukar 8/12
Tindastóll 7/13
Fjölnir 7/13
Hamar 6/14
KFÍ 4/16
Snæfell – Hamar. Hamar verður að vinna báða leikina sem þeir eiga eftir og treysta á að Fjölnir tapi báðum því Fjölnir er með betri innbyrðisstöðu. Hamar er því u.þ.b. fallið! Þeir vinna ekki Snæfell á útivelli en Snæfellingar mega ekkert við því að tapa ef þeir ætla sér Deildarmeistaratitilinn. Ég spái þeim því öruggum sigri.
ÍR – KR. Við urðum fyrstir liða til að vinna KR eftir áramót og á þeirra heimavelli yfir höfuð á þessu tímabili og það gerðum við án Lalla og Helga. KR-ingar söknuðu Fannars Ólafssonar og sakna hans meira en margan grunar held ég. Hann er ákveðinn prímusmótor í KR-liðinu og ég spái þeim vandræðum á meðan Fannars nýtur ekki við. Þeir mæta mjög spræku ÍR-liði sem hefur held ég ekki tapað oft á heimavelli sínum á þessu tímabili og eru taplausir þar eftir áramót. ÍR er með 3 mjög sterka útlendinga og vaska íslenska hersveit og eru til alls líklegir í framhaldinu. ÍR vinnur þennan leik þ.a.l.
KFÍ – Njarðvík. Njarðvíkingar eru of stór biti fyrir Ísfirðingana sem eru fallnir. Njarðvíkingar eru óárennilegir þessa dagana.
Tindastóll – Keflavík. Stólarnir eru í baráttu um að komast í úrslitakeppnina og gætu reynst Keflvíkingum erfiðir en þeir eru allaf sterkir á heimavelli. Ég ætla að kasta upp á þennan leik og upp kemur Tindastólssigur….
Stjarnan – Haukar. Teitur Örlygs og lærisveinar hans og þá kannski sérstaklega Justin Shouse, lásu greinilega pistil minn fyrir síðustu umferð því þeir tóku Snæfellinga þvert ofan í mína spádóma…. Nokkuð sannfærandi 14 stiga sigur þeirra á Deildarmeistaraefnunum kom mér á óvart en að sögn Teits var þetta besti leikur hans manna til þessa á tímabilinu. Ekki amalegt fyrir þá ef þeir eru að toppa núna, á hárréttum tímapunkti. Ég spái þeim þeir sigri í þessum leik og þ.a.l. eiga Haukar áfram í baráttu um sæti í úrslitunum.
Grindavík – Fjölnir. Þetta er fyrirfram einn af þessum leikjum sem ég er smeykur við. Fjölnir sem verið hefur í fallbaráttu nánast í allan vetur, hafa unnið 2 leiki í röð eftir að þeir skiptu um kana og virðist Brandon Brown vera ansi öflugur. Hið minnsta átti hann svakalega troðslu í síðasta leik sem hægt er að sjá á karfan.is. Auðvitað þarf meira en troðslur til að vera metinn öflugur en skv. tölum þá er hann það. Ég veit ekki hvern Helgi setur til höfuðs honum en það kæmi ekki á óvart ef sá ítalskættaði fær það hlutverk en þar fer frábær varnarmaður! Liðið okkar hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir síðustu breytingu og er von á mun meiru frá því held ég að mér sé óhætt að fullyrða! Nick er ennþá að komast í form og sömuleiðis Helgi og svo er ég viss um að Mladen á ennþá fullt inni. Sigurkarfan hans á móti KR færir honum pottþétt byr undir báða vængi og verður spennandi að fylgjast með honum í framhaldinu. Ég spái mínum mönnum að sjálfsögðu sigri en þeir þurfa að mæta tilbúnir til leiks, annars gæti illa farið! Og þar sem við vinnum skv. spá minni og KR tapar, þá verður 2.sætið okkar eftir þessa umferð og mjög spennandi lokaumferð á fimmtudag framundan. Við kíkjum á það þegar þar að kemur.
Áfram Grindavík!