Grískur miðherji til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hefur samið við gríska miðherjann Gaios „Guy“ Skordilis um að leika með félaginu í Subway-deild karla á komandi leiktíð. Skordilis er 208 cm á hæð og hefur leikið stærstan hluta af sínum ferli í efstu deild í Grikklandi. Hann er 34 ára gamall og er þessi reynslumikli leikmaður væntanlegur til Grindavíkur um næstu mánaðarmót.

Skordilis er mjög öflugur miðherji sem hefur meðal annars orðið grískur meistari og einnig bikarmeistari. Hann lék síðast með Montreal Alliance í Kanada en lék meðal annars með gríska stórliðinu Panathinaikos tímabilið 2012-2013. Skordilis var einnig í yngri landsliðum Grikklands á sínu tíma.

„Ég er mjög ánægður með að fá þennan reynslumikla leikmann til liðs við okkur. Hann hefur leikið í mjög sterkum deildum á ferli sínum og mun styrkja okkar lið umtalsvert fyrir komandi tímabil. Ég er mjög bjartsýnn á að þarna sé á ferðinni leikmaður sem muni hjálpa okkur í baráttunni við bestu lið landsins,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Guy Skordilis velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann í HS Orku Höllinni í vetur.
Áfram Grindavík!