Grindavík upp um deild

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavíkurstelpur tryggðu sér sæti í úrvalsdeild kvenna í körfubolta eftir 3ja stiga sigur á KFÍ, 50-47, í æsispennandi og spennuþrungnum úrslitaleik liðanna. Mikil fagnaðarlæti brutust út eftir að sigurinn var í höfn.

Grindavík var yfir 18-15 eftir fyrsta leikhluta og hafði 3ja stiga forskot í hálfleik, 28-25. KFÍ komst reyndar yfir um tíma í öðrum leikhluta. En þegar 5 mínútur voru eftir náði Grindavík 10 stiga forskoti með 3ja stiga körfu Jeanne Lois Figeroa, 48-38, og héldu nú flestir að sigurinn væri í höfn. En svo var aldeilis ekki.

Grindvíkingurinn í liði KFÍ, Sólveg Helga Gunnlaugsdóttir, setti niður þriggja stiga körfu og í kjölfarið kom önnur 2ja stiga karfa KFÍ einni og hálfri mínútu fyrir leikslok á milli þess sem Yrsa Ellertsdóttir setti niður eitt víti fyrir Grindavík og munurinn aðeins tvö stig, 49-47. Lokamínútan var æsispennandi, bæði lið klúðruðu upplögum færum og þarna voru taugar leikmanna þandar til hins ítrasta. Berglind Anna Magnúsdóttir fékk tvö vítaskot þegar 20 sekúndur voru eftir, hún klikkaði á því fyrra en setti það seinna niður sem var afar mikilvægt því nú var munurinn 3 stig, 50-47. Sólveig Helga átti tvær tilraunir við þriggja stiga skot en þau geiguðu og Grindavík fagnaði sigri og sæti í úrvalsdeild.

Þetta er frábærlega gert hjá Grindavíkurstelpum sem spiluðu eingöngu á heimastelpum í vetur og fengu svo liðsstyrk þegar leið á veturinn í Söndru Dögg Guðlaugsdóttur og Söndru Ýr Grétarsdóttur. Hin 14 ára gamla Ingibjörg Sigurðardóttir var stigahæst og átti góðan leik, Berglind Anna var sú sem dró vagninn, Ingibjörg Yrsa var gríðarsterk og þá var Jóhanna Rún Styrkmisdóttir sem er 15 ára afar drjúg og stóð sig, líkt og allt liðið. Þetta var sigur liðsheildarinnar.

Næsta verkefni er að fá heim allar þær stelpur sem eru að spila í öðrum liðum og þá verður Grindavík að berjast um titilinn í úrvalsdeildinni. Engin spurning!

Stig Grindavíkur:
Ingibjörg Sigurðardóttir 13, Yrsa Ellertsdóttir 11, Berglind Anna Magnúsdóttir 10, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 8, Jeanne Lois Figeroa Sicat 6, Katrín Ösp Rúnarsdóttir 2.