Grindavík byrjar mótið með sigri

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Iceland Express deildin hófst í kvöld og stórleikur umferðarinnar var hér í Grindavík þar sem okkar menn sigruðu með sex stiga mun.

Það var góður þriðji leikhluti sem gerði út af leikinn því aðrir leikhlutar voru nokkuð jafnir.  Gestirnir byrjuðu mjög vel þar sem þeir komust í 7-0 og svo aftur í 12-2.  Okkar menn söxuðu á þá og var staðan 14-16 eftir fyrsta leikhluta.

Þorleifur kom svo Grindavík yfir með þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta og var sá leikhluti mjög spennandi þar sem aldrei var langt á milli liðanna.  Eins og kom fram áður þá var það góður leikur í þriðja leikhluta sem skildi liðin af og hélt Grindavík öruggri forystu í seinni hálfleik en misstu þó leikinn í óþarfa lítinn mun undir lok leiks og endaði leikurinn 86-80.  

Erlendi leikmaður Grindavíkur, Giordon Watson, lofar góðu og endaði hann sem stigahæsti leikmaður Grindavíkur með 23 stig.  Annars dreifðist stigaskorið vel á milli leikmanna Grindavíkur, ólíkt gestanna þar sem tveir leikmenn sáu um bróðurpartinn af stigum Keflavíkur.  Páll Axel var með 16 stig, 5 fráköst og 75% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línu. Sigurður var með 13 stig, Lalli 10, Ómar 9, Ólafur 8 og Jóhann 7.  

Vítanýtingin var hinsvegar ekki upp á marga fiska. Enginn náði yfir 50% nýtingu og í heildina var Grindavík með 38% nýtingu af vítalínunni.

Fyrsti sigurinn því í höfn og veturinn lofar bara nokkuð góðu. Það má eflaust laga einhverja hluti en í heildina verður erfitt fyrir andstæðinga Grindavíkurliðsins að stöðva okkar menn þar sem stigaskorið dreifist jafnt og reyndur maður í hverri stöðu.

Næsti leikur er á sunnudaginn þar sem Grindavík fer í Grafarvoginn og mæta Fjölni klukkan 19:15