Grindavík er komið í 4 liða úrslit Powerade bikarsins eftir sigur á Njarðvík í gær. Lokatölur voru 78-77 í æsispennandi leik.
Bæði lið hafa átt góðu gengi að fagna upp á síðkastið og því mátti búast við fjörugum og spennandi leik. Íþróttahúsið var þéttskipað og skemmtileg stemming hjá báðum hópum.
Gestirnir leiddu leikinn í fyrri hálfleik og voru yfirleitt með um 4 stiga forskot. Bæði lið hafa í sínum röðum margar öflugar skyttur en stigin komu í gær flest í nágrenni við körfuna. Njarðvík fengu nýlega til sín nýjan erlendan leikmann, Tracy Smith, sem er stærri og tekur meira til sín heldur en fyrri leikmaður þeirra. Barátta hans og Sigga og Ómars var því eitthvað sem fólk fylgdist sérstaklega með. Okkar menn komu vel út úr þeim samanburði þar sem Sigurður var með 20 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Ómar var líka öflugur eins og hann hefur verið í vetur með 13 stig og 10 fráköst.
Af öðrum leikmönnum stóð Lewis Clinch upp úr með 23 stig og þar af flest í þriðja leikhluta á þeim tíma sem Grindavík jafnaði og komst yfir. Ólafur átti einnig góðan leik með 16 stig og margar stemmingskörfur. Félagarnir úr Njarðvík, Logi og Jóhann Árni núlluðu hvorn annan út þar sem þeir voru með hvorn annan í strangri gæslu mest allan leikinn.
Eins og hefur komið fram þá var Njarðvík betri aðilinn í fyrri hálfleik en Grindavík kom sterkt inn í seinni hálfleikinn og komst yfir um miðjan þriðja leikhluta og héldu forystunni til leiksloka.
Grindavík er því komið í 4 liða úrslit bikarkeppninnar ásamt Tindastól. Í kvöld ræðst hvort það verða ÍR eða Keflavík B annarsvegar og Þór eða Haukar hinsvegar sem halda áfram.