Grindavík leiðir einvígið við KR í 4 liða úrslitum Dominosdeild karla eftir 95-87 sigur í gærkveldi.
Grunnurinn að sigrinum í gær var lagður í fyrsta leikhluta. Aaron skoraði fyrstu 5 stig Grindavíkur en illa gekk hjá gestunum að hitta í körfuna á upphafsmínútunum sem okkar menn nýttu sér og komust fljótt í 15 stiga forskot.
KR byrjaði seinni hálfleikinn jafnvel og Grindavík þann fyrri. Í þriðja leikhluta var munurinn kominn í 1 stig og allt í einu leikurinn orðinn spennandi.
Grindavík hélt samt haus og landaði sigrinum á síðustu mínútunum. Gestirnir reyndu að nappa okkar menn á vítalínunu en Aaron, Jóhann og fleiri klikkuðu ekki.
Jóhann Árni var magnaður í gær. Baráttan skein í öllum hans aðgerðum þar sem hann henti sér á alla lausa bolta. Hann smá saman hitnaði í leiknum þangað til hann ofhitnaði en kom til baka á lokamínútunum. Aaron var að venju öflugur ásamt Lalli, Jón Axel og fleirum. Við eigum hinsvegar bæði Sammy, Sigurð og nokkra fleiri inni sem mun eflaust koma sterkir inn í næstu leiki.
Það lið sem fyrst vinnur þrjá leiki fer í úrslitarimmuna og næsti leikur á fimmtudag í DHL höllinni klukkan 19:15. Stemmingin var fín í gær og mun magnast með hverjum leiknum. Allir sem vettlingi geta valdið eru því hvattir til að mæta í gulu og hvetja sína menn.
Mynd hér að ofan tók Jón fyri karfan.is þar sem meðal annars þessi stórgóða umfjöllun um leikinn er að finna.