Grindavík 87 – Stjarnan 67

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Íslandsmeistararnir sigruðu bikarmeistarana örugglega í sjöttu umferð Dominosdeild karla í gær.  Lokatölu voru 87-67

Ný erlendur leikmaður lék með Grindavík í gær og er þar á ferðinni Lewis Clinch Jr sem spilaði áður með Georgia Tech háskólann,  Ísrael, NBA-D League, í Puerto Rico svo eitthvað sé nefnt.

En að leiknum.. Leikurinn byrjaði illa hjá báðum liðum, skotin voru ekki að detta og liðin að aðlagast að nýjum erlendum leikmönnum í báðum liðum. Grindavík tók þó forystuna og hélt henni fram að hálfleik í stöðunni 45-37.

Þriðji leikhlutinn var mjög skemmtilegur.  Grindavík byrjaði á að því að ná góðum spretti en gestirnir svöruðu og virtust ætla að jafna leikinn.  Kom þá auka kraftur í okkar menn og sýndu frábæra baráttu og náðu öruggri forystu aftur.  Ómar fór mikinn í þessum leikhluta, skoraði margar körfur og varðist vel.

Í fjórða leikhluta róaðist leikurinn aftur enda Grindavík með örugga forystu, reynsluminni leikmenn fengu að spreyta sig í báðum liðum og sýndu fína takta.

 Það var öflug liðsheild sem skóp þennan sigur, flott framlag frá öllum leikmönnum. Ómar Örn Sævarsson var þar hæstur með 17 stig og 8 fráköst sem gera 20 framlagsstig og það á 23 mínútum.

Sjö leikmenn voru með 6 eða fleiri stig, 4 með 10 eða meira.  Lewis kom einnig vel út úr leiknum. Var spilandi menn uppi í stað þess að vera með einleik fyrir sína tölfræði.