Grindavík 64 – Keflavík 84

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík tók á móti toppliði Dominosdeildar kvenna í gærkveldi og voru gestirnir einu númeri of stórir.  Lokatölur voru 84-64 fyrir Keflavík 

Haukar jöfnuðu Grindavík að stigum með sigri á Njarðvík og eru því liðin saman í 3-4 sæti með 10 stig.

Umfjöllun um leikinn á karfan.is

Keflavík og Grindavík mættust í Röstinni í kvöld og fyrir leik búist við hörku viðureign. Grindavíkurstúlkur kannski ekki alveg verið að sýna mátt sinn í síðustu leikjum og Keflavík að koma úr síðustu umferð með sitt fyrsta tap á bakinu. Það fór hinsvegar að lokum að Keflavík vann nokkuð öruggan sigur í Röstinni 64:84. 
 
Það voru heimasæturnar í Grindavík sem hófu leikinn af töluvert meiri krafti og eftir tveggja mínútna leik var staðan 7:1 Grindavík í vil og Keflavíkurstúlkur í basli með að koma tuðrunni hreinlega ofaní körfuna hjá þeim gulklæddu. En meisturunum óx ásmegin og náðu fljótlega að koma sér almennilega á blað og jafnræði var með liðinum út fjórðunginn en Grindavík enduðu með fjögurra stiga forystu eftir þann fyrsta. 
 
Í öðrum fjórðung spíttu svo gestirnir í lófana og komust yfir í leiknum. Þar fóru fremstar Porsche Landry, Sara Rún og Bryndís Guðmundsdóttir. Mest komust þær í 7 stiga forystu en í hálfleik skildu liðin þannig að Grindvík hafði gert 35 stig gegn 40 stigum frá gestunum. 
 
Fljótlega í þriðja fjórðung fór að draga til tíðinda. Keflavík mættu grimmar til leiks og svo má segja að vendipunktur varð í leiknum þegar Pálína Gunnlaugsdóttir fékk snögglega tvær villur á sig og þar með komin með fjórar villur. Þarna var aðeins um mínúta liðin inn í seinni hálfleik og eins og gengur þá fór Pálína á bekkinn hjá Grindavík. Við þetta þá riðlaðist leikur Grindavíkur og Keflavík gekk á lagið.  Þegar yfir var staðið eftir þriðja leikhluta leiddu gestirnir með 12 stigum, 53:65. 
 
Keflavík hélt áfram að þjarma að Grindavík í þeim fjórða og komust mest í 25 stiga forystu. Þarna var síðasta nagla rekið í kistu Grindvíkinga og þegar um 4 mínútur voru til loka leiks þá tók Jón Halldór þjálfari Grindvíkinga sína sterkustu leikmenn út af og lét unga og efnilega leikmenn sína klára leikinn. 
 
Heilt yfir þá voru Keflavík töluvert betri aðilinn þetta kvöldið og áttu sigurinn fyllilega skilið.  Þrír leikmenn Keflavíkur brutu 20 stiga múrinn þetta kvöldið en þær Porsche og Bryndís settu fínar tvennur sitt hvor. Bryndís með 24 stig og 13 fráköst  en Porsche ekki langt undan með 24 stig, 12 fráköst og á þó nokkra centimetra uppí hana Bryndísi.  Þar var svo Sara Rún sem var með 21 stig.  Fátt var um fína hjá heimastúlkum en Pálína Gunnlaugsdóttir var þeirra stigahæst, en uppúr stendur þó skelfileg skotnýting heimastúlkna í þessum leik.