Grindavík er komið með yfirhöndina í einvíginu gegn Þór Þorlákshöfn í 8 liða úrstlium. Staðan er 2-1 og geta okkar menn tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á sunnudaginn.
Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun, spennandi mest allan leikinn en Grindavík var sterkari á lokasprettinum og sigraði með 20 stiga mun.
Gestirnir jöfnuðu einvígið í siðasta leik og vakti það hjá þeim von því Þór var betri á upphafsmínútunum. Mikil spenna var í leiknum og bæði lið gerðu mörg mistök. Þór leiddi eftir fyrsta leikhluta 12-16. Útlitið var ekkert sérstaklega bjart á þessum tíma því Þórsararni virtust hafa tök á leiknum. Tók þá Ólafur Ólafsson sig á flug, fyrst tróð hann boltanum yfir alla 2.18 metrana af Ragnari og stuttu síðar aðra glæsilega toðslu, hér má sjá tvær troðslurnar hjá honum.
Upp úr þessu komst Grindavík yfir en jafnt var á tölum fram að hálfleik og staðan 36-36 þegar menn gengu til klefa.
Þriðji leikhlutinn var einfaldlega hans Óla. Hann setti 4 þriggja stiga körfur í þessum leikhluta og allar með manni í sér. Grindavík skoraði 26 stig á móti 17 hjá Þór í þriðja leikhluta. Okkar menn héldu áfram að auka við forskotið í fjórða leikhluta og sigurinn var öruggur 87-67.
Það var sterk vörn sem skilaði þessum sigri því Þór vill spila hraðan bolta en Sverrir var með plan sem stoppaði þeirra leik sem sýnir sig best að þeir skoruðu aðeins 67 stig.
Stigahæstur var Ólafur með 29 stig, 12 fráköst með samtals 37 framlagsstig. Lewis var með 24 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.
Fjórði leikurinn er á sunnudaginn klukkan 19:15