Grein: KKÍ Computer says no!

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Í vikunni tryggði lið meistaraflokks kvenna hjá Grindavík sér sæti í úrslitum 1. deildar og mæta þær Njarðvík í einvígi um sæti í Domino´s deildinni á næsta ári. KKÍ gaf út þriðjudaginn 25.maí að einvígið skyldi hefjast 31. maí og ef það færi í fimm leiki yrði oddaleikur spilaður 12. júní.

Lið stúlknaflokks Grindavíkur er einnig búið að standa sig vel í vetur og tryggði sér sæti í úrslitaleik á dögunum. Sá leikur er á dagskrá laugardaginn 29.maí klukkan 19:45.

Þessi leikjaniðurröðun býr hins vegar til ákveðið vandamál. Það er þekkt staðreynd að konur byrja fyrr að spila með meistaraflokkum en karlar. Oft er kjarni meistaraflokks leikmenn sem enn eru í yngri flokkum og sú er staðan hjá Grindavík. Ef frá er talinn erlendur leikmaður meistaraflokks þá leggja leikmenn stúlknaflokks fram 90% af leikmínútum í meistaraflokki.

Í þessu ljósi óskaði Körfuknattleiksdeild Grindavíkur eftir því við KKÍ að sambandið tæki tillit til aðstæðna og tryggði tvo frídaga á milli úrslitaleiks stúlknaflokks og fyrsta leiks Grindavíkur og Njarðvíkur í úrslitaeinvígi 1.deildar. Óskað var eftir að fyrsti leikur Grindavíkur og Njarðvíkur yrði færður aftur um einn dag og aðrir leikir í einvíginu færðir til í samræmi við það.

Rök Grindavíkur voru að með þeirri leikjaniðurröðun sem lægi fyrir væri verið að setja óþarfa aukið álag á leikmenn og að staðan skapaði þar að auki óþarfa togstreitu á milli afreksstarfs og yngri flokka starfs. Auk þess myndi tilfærsla á leikjum í úrslitaviðureign 1.deildar ekki koma niður á hagsmunum annarra þar sem úrslitakeppnin væri viku á undan áætlun en samkvæmt skjali sem KKÍ gaf út 23. apríl var áætlað að úrslitaeinvígi 1. deildar myndi hefjast 6.júní og lyki í síðasta lagi 18.júní.

Mótanefnd KKÍ hafnaði þessari beiðni Grindavíkur með þeim einföldu rökum að þeir töldu bilið á milli úrslitaleiks stúlknaflokks og leiks meistaraflokks vera nægilega mikið. Stúlknaflokkur lýkur leik um klukkan 21:00 á laugardagskvöld og sömu leikmenn eiga síðan að vera mættir til leiks í úrslitaeinvígi 1.deildar minna en tveimur sólarhringum síðar.

Þessi rök KKÍ falla um sjálf sig þegar maður skoðar þeirra eigin leikjaáætlun fyrir úrslitakeppni meistaraflokka. Þar er alltaf gert ráð fyrir tveimur heilum dögum á milli leikja og því óskiljanlegt af hverju mótanefnd telur slíkt ekki eiga við í þessu tilfelli.

Ósveigjanleiki KKÍ veldur okkur Grindvíkingum vonbrigðum sérstaklega í ljósi þess hvaða áhrif Covid-19 hefur haft á tímabilið en að öllu jöfnu væri úrslitakeppni meistaraflokka ekki að spilast á sama tíma og úrslitahelgi yngri flokka. Vissulega hefði þessi áætlun KKÍ vel getað gengið upp en þegar í ljós var komið að sama félag væri að leika í úrslitaleik stúlknaflokks og í úrslitaeinvígi 1. deildar hefði verið lítið mál að gera breytingar. Það er bara eins og tölvan segi nei – computer says no.

Metnaður Grindavíkur er að vera með lið í Domino´s deildum karla og kvenna. Tækifærið á því er svo sannarlega til staðar en til að möguleikarnir séu sem mestir er nauðsynlegt að leikmenn komi eins vel undirbúnir til leiks og hægt er.

Eins og KKÍ raðar upp þessum leikjum er það hins vegar ekki hægt. Staðan núna er sú að þessar stúlkur standa frammi fyrir því að mæta af fullum krafti í leik um Íslandsmeistaratitil en þreyttar í leik um sæti í Domino´s deildinni á næsta ári. Tíminn á milli er einfaldlega of stuttur fyrir eðlilega endurheimt og meiðslahættan eykst mjög mikið. Er þetta sú umgjörð sem við viljum búa til fyrir ungt íþróttafólk?

Umræddir leikmenn eru á leið í tvö af stærstu verkefnum ferils síns hingað til, annars vegar leik um Íslandsmeistaratitil í stúlknaflokki og hins vegar leik sem getur skilað þeim sæti í Domino´s deildinni á næsta ári. Að þær geti jafnvel ekki beitt sér 100% í báðum þessum leikjum, vegna ósveigjanleika KKÍ, er ósanngjarnt fyrir þær og aðra sem að leikjunum koma.

Við vonum svo sannarlega að mótanefnd KKÍ sjái að sér og geri breytingar á leikjafyrirkomulaginu. Það væri besta og sanngjarnasta niðurstaðan fyrir alla aðila málsins.

Með körfuboltakveðju,
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur