Fyrsti titillinn í húsi!

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík vann í gærkvöldi fyrsta og vonandi ekki síðasta titil tímabilsins, þegar KR-ingar voru lagðir í leik um tignina “Meistari meistaranna” en í þeim leik mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs.  

KR vann reyndar báða titla þá en þar sem við mættum þeim í bikarúrslitum áttum við réttinn á að leika þennan leik.

Leikurinn var í járnum allan tímann og tryggði Paxel okkur sigur með 3-stiga skoti um leið og leiktíminn rann út, glæsilegt!!!

Paxel sem hefur verið meiddur í haust, kom af bekknum en hann endaði með 12 stig og 7 fráköst á þeim rúmu 20 mínútum sem hann spilaði.

Ég sá ekki leikinn en skv. tölfræðinni þá voru Giordan Watson og Óli troð okkar bestu menn en Giordan skoraði 24 stig, gaf 5 stoðsendingar, tók 7 fráköst og stal 2 boltum.  Hann var hæstur í framlagsstigum með 28.

Óli skilaði 21 framlagsstigi með 14 stigum, 5 fráköstum, 3 stoðsendingum og síðast en ekki síst, 3 vörðum boltum.  Fyrir utan lokaskot Paxel átti Óli víst tilþrif kvöldsins þegar hann tróð viðstöðulaust eftir skot frá Sigga Þorsteins.

Þessi sigur gefur vonandi góð fyrirheit fyrir veturinn og gleymum ekki að við eigum J´Nathan Bullock inni en hann kemur vonandi núna í vikunni.  Ef hann reynist sá happafengur og vonir standa til, þá er aldrei að vita nema við getum gert harða atlögu að fleiri titlum í vetur.

Áfram Grindavík!