Fullt hús titla

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Jæja gott fólk.

Stuðið er að byrja!

Að því tilefni er ekki úr vegi að byrja skrif á heimasíðunni og stefni ég á að vera tiltölulega virkur á þeim vettvangi í vetur.

Ég kalla pistilinn Fullt hús titla því við erum með fullmannað lið, búnir að vinna þá titla sem hafa verið í boði.  Byrjuðum á að vinna Reykjanesmeistaratitilinn eftir 4 sigra og 1 tap og unnum svo Keflavík í leik um nafnbótina Meistari meistaranna.  Sá titill verður því áfram í okkar vörslu en þess má geta að allir titlarnir sem við unnum á síðasta tímabili og þeir titlar sem nú hafa safnast í sarpinn, eru í öruggri vörslu í Þorbirni, einum af 3 stærstu styrktaraðilum Körfuknattleikseildarinnar.  Titlarnir eyddu sumrinu hjá bræðrunum í Stakkavík, færðu svo yfir í Þorbjörn og kíkja svo eftir áramót í Vísi.   

Liðið hefur æft vel í sumar undir stjórn nýja þjálfarans, Sverris Þórs Sverrissonar (ekki Sveppi krull…..) og náði æfingatörnin hámarki í vel heppnaðri æfingarsólbaðsferð til Tenerife en þangað fór liðið fullmannað eftir að Siggi Þorsteins hafði lokið landsliðsprógrammi sínu og Kanarnir Aaron Broussard og Sammy Zeglinski voru komnir.  

Kanarnir hafa komið vel út til að byrja með og þá sérstaklega Aaron sem hefur skorað nokkurn veginn þegar honum hefur sýnst og það án þess að nokkur taki eftir því……….  Hann hefur verið með um og yfir 30 stig í öllum leikjum og mest tekið 14 fráköst í leik og stal í einum leiknum 8 boltum!  Hann virðist vera akkurat þessi týpa sem virkar best í okkar deild, er fjölhæfur inside maður sem getur líka skotið fyrir utan.  Einn af fróðari körfuboltaspekingum okkar Grindvíkinga, Ólafur Þór Jóhannsson, pabbi Jóhanns, Lalla og Óla, sagði mér að Aaron minnti sig á Damon nokkurn Johnson og ef sannleikskorn mun finnast í þeirri samlíkingu þá erum við í góóóóðum málum……..  

Ég sá fyrstu tvær æfingarnar eftir að Kanarnir voru komnir og hafði að orði að Sammy væri sá besti sem ég hefði séð m.a. fyrstu æfingu, ég sá hann varla klikka á skoti!  Eitthvað hefur hann síðan þá, ekki alveg náð að finna fjölina sína en ljóst má þykja að hann er mikill skotmaður og með mikla tækni og snerpu og ætti því skv. öllum formúlum, að geta orðið mjög góður leikstjórnandi.  Svo þrátt fyrir hægari byrjun hjá honum þá er engin ástæða til að panikka, hann er í það góðu yfirlæti hjá Einari bróður og mun örugglega finna sig vel og þegar sjálfstraustið verður komið í botn hjá honum verða honum allir vegir færir.  

Gaman hefur verið að sjá ungu strákana koma inn í þetta og munu þeir allir koma við sögu í vetur, það er ég viss um!  Eins gaman að sjá svissneska Grindvíkinginn David Inga Bustion í gula búningnum en þar er upprennandi leikmaður á ferð.

Fyrsti leikur Íslandsmeistaranna er á móti Keflavík og fer hann fram í Reykjanesbæ og hefst kl. 19:15.  Allir Grindvíkingar að sjálfsögðu hvattir til að mæta og styðja sína menn.

Stjórnarstörf eru komin á fullt en vinna stendur núna yfir við leikjaskrána sem verður aðeins seinna á ferðinni en venjulega og á allra næstu dögum hefst sala árskorta en spennandi dæmi er í gangi samhliða því sem betur verður kynnt síðar.

Síðast en ekki síst skal hér minnst á herrakvöld sem Jón Gauti Dagbjartsson hefur veg og vanda af en það verður haldið í Slysavarnarsalnum næsta laugardagskvöld, 13.október.  Dagskráin er nokkurn veginn klár og er mjög spennandi og verður betur kynnt núna í vikunni.

Áfram Grindavík!