Frábær sigur í skugga meiðsla Óla

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík er komið ÚRSLIT Iceland Express deildar karla eftir sigur í hörkuleik á móti Stjörnunni í Garðabænum, 77-79!

Því miður urðum við fyrir miklu áfalli þegar Ólafur Ólafsson meiddist illa í fyrri hálfleik og skv. lýsingum á kki, visir.is og mbl.is er ljóst að Óli er ökklabrotinn!  Hann var fluttur með sjúkrabíl og er ekki vitað nákvæmlega á þessari stundu, hvort um ökklabrot sé að ræða en væntanlega er deginum ljósara að Óli hefur lokið leik á þessu tímabili og Grindavík þarf að landa þeim stóra án hans.  

Þessi sigur er tileinkaður Óla og vonandi nær hann sér sem allra fyrst!

Skv. lýsingum á þessum helstu vefmiðlum var um óhugnanlega spennu að ræða!  Við vorum yfir nánast allan leikinn og mest sá ég 17 stiga mun okkur í vil, 42-59.  Eftir það settu Stjörnumenn í gírinn og áður en varði var munurinn kominn í 7 stig, 52-59!  Þessi íþrótt er svo mikið konfekt!  8 stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 57-65 en Stjörnumenn voru þarna komnir á sporið og minnkuðu bilið hægt og bítandi.  Í stöðunni 68-72 var dæmd ásetningsvilla á Bullock og vildi hinn dagsfarsprúði og hlutlausi Einar Hannes meina að það hafi verið harður dómur!  Fannar setti bæði vítin niður og Lindmets jafnaði!  Cothran kom Stjörnumönnum svo yfir í fyrsta skiptið í leiknum og allt greinilega á suðupunkti! Stjarnan komst aftur yfir 76-74 en Paxel setti eina þristinn sinn í leiknum niður og það vel mikilvægan og við því aftur komnir í bílstjórasætið!  Lindmets setti annað víta sinni niður, Paxel klikkaði á 3-stiga skoti hinum megin og svo kom upp atriði sem Stjörnumenn eru væntanlega brjálaðir yfir!  Fannar náði frákastinu og skv. lýsingu á live stat kki kom þetta: “Báðir leikmenn Grindavíkur virtust taka hressilega utan um Fannar sem olli því að hann missti boltann.  Stjarnan vill fá villu en fengu ekki.”  Meira að segja Einar Hannes viðurkenndi fyrir mér að þarna hefði vel verið hægt að dæma villu….  Lalli fékk stolinn bolta á þetta og gaf á Sigga sem skoraði sigurkörfu okkar og Justin Shouse vildi líka meina að brotið hefði verið á sér í lokin en ekkert dæmt.  Kannski að réttlætið hafi sigrað því þeir voru víst margir dómarnir sem féllu Stjörnumegin í 3. leiknum….

Alla vega og þeirri staðreynd verður ekki breytt að við erum komnir í ÚRSLITIN, á ensku FINALS!!!!

Mér sýnist Bullock hafa verið okkar sterkasti maður í kvöld með 26 stig og 11 fráköst.  Skv. tölfræðinni var Siggi Þorsteins líka frábær í kvöld og tók ófá sóknarfráköstin en hann var með 15 stig og 13 fráköst.  Watson var víst í strangri gæslu Cothrans sem er mun hærri og gat því lítið skorað en gaf 11 stoðsendingar, skoraði auk þess 6 stig og tók 5 fráköst.

Nóg um þetta í bili.

Næst er það lokaorrystan og það á móti spútnik liði Benna úr Þorlákshöfn.  Suðurstrandavegurin mun svo sannarlega sanna gildi sitt á næstu dögum!  Baráttan hefst á mánudagskvöld og erum við að sjálfsögðu með heimaleikjaréttinn og þessi fyrsti leikur því í Röstinni og hefst kl. 19:15.  ÖLLU verður til tjaldað varðandi umgjörð og Egill er víst búinn að gera glænýtt myndband sem hann sjálfur segir að sé frábært!  Nú troðfyllum við Röstina og hjálpumst öll að við að koma ÍSLANDSMEISTARATITLINUM til Grindavíkur!

Áfram Grindavík!