Kæru Grindvíkingar,
Það að ég sé að rita nýjan formannspistil þýðir það að ný Leikjaskrá er á leið í loftið. Ég ætlaði reyndar að vera löngu búinn að skrifa þennan pistil en þetta er líklega í þriðja sinn sem ég byrja á því að skrifa hann. Í millitíðinni hafa orðið töluverðar breytingar á hópnum hjá okkur. Sem dæmi fór Dagur Kár í atvinnumennsku og núna síðast fór Bragi Guðmundsson til Hauka þar sem hann ætlar að vaxa og dafna. Við höfum sent tvo bandaríska leikmenn heim en vonandi erum við nú komin á leiðarenda með hópinn hjá karlaliðinu.
Okkar markmið með Leikjaskránni er að vera upplífgandi; gefa bæjarbúum innsýn inn í starfið, kynnast leikmönnum og ásamt skemmtilegum fróðleik um starfið okkar. Einnig viljum við með þessu ágæta blaði sýna bæjarbúum hvaða fyrirtæki það eru sem eru okkar helstu styrktaraðilar og þakka aðeins fyrir þann frábæra stuðning sem körfuboltinn í Grindavík hlýtur frá fjölmörgum fyrirtækjum og velunnurum.
Rekstur á íþróttaliði í fremstu röð verður sífellt erfiðari og undanfarin 2 ár í heimsfaraldri hafa vera gífurlega krefjandi fyrir okkur sem stöndum í fremstu röð fyrir klúbbinn okkar. Okkur hefur okkur þó tekist að skapa mjög sambærilega umgjörð og flest þau félög sem við berum okkur saman við þrátt fyrir að vera fámennari og geta ekki gengið að háaum fjárveitingum vísum. Við erum stolt af því að vera Grindvíkingar og við finnum fyrir miklum velvilja frá okkar stuðningsmönnum og styrktaraðilunum.
Magnað einvígi
Ég er afar stoltur af árangrinum sem kvennaliðið okkar hefur áorkað á þessu ári. Við erum með mjög ungt kvennalið en það er á allra vörum er hve er framtíðin björt. Það missti enginn af einvíginu við Njarðvík í sumar þegar okkar ungu leikmenn stigu upp og kláruðu einvígi sem allir voru búnir að afskrifa. Þetta var eitt það skemmtilegasta einvígi sem ég hef orðið vitni að og magnað afrek að tryggja sér sæti í efstu deild eftir að hafa lent 0-2 undir í úrslitaeinvíginu. Þjálfarinn Ólöf Helga hætti með liðið í sumar og var núna að eignast sitt þriðja barn. Við óskum henni innilega til hamingju með frábæran árangur og einnig með nýja erfingjann. Þorleifur Ólafsson (Lalli) hefur tekið við keflinu með kvennaliðið og með honum höfum við sett niður áætlun til næstu þriggja ára. Við höfum mikla trú á okkar uppöldu stelpum og erum tilbúin að leggja hart að okkur við að veita þeim það tækifæri að vera í fremstu röð á Íslandi.
Ég er auðvitað líka mjög stoltur af karlaliðinu okkar og þeim karakter sem liðið sýndi í miklu mótlæti á síðasta tímabili. Það er magnað að sjá okkar leikmenn þjappa sér saman þegar á móti blæs og spila af stolti fyrir merki félagsins. Við lærðum mikið af síðasta tímabili og ætlum okkur að reyna að gera enn betur á þessu tímabili.
Breytingar á íslenskum körfubolta
Ég lá heima veikur dögunum og nýtti þá tímann til að horfa á einvígi Grindavíkur og KR um Íslandsmeistaratitilinn árið 2014. Okkar lið var skipað einum útlending en svo að megninu til uppöldum Grindvíkingum. Það hafa orðið örar breytingar á íslenskum körfubolta á síðustu árum og í dag við sjáum fjölda erlendra leikmanna í deildunum okkar. Þessi þróun gleður mig ekki og er ógn við leiktíma ungra íslenskra leikmanna sem verða að fá tækifæri til að taka sín fyrstu skref. Við höfum þurft að aðlaga okkur að þessum breytta veruleika og erum í dag með þrjá erlenda leikmenn í karlaliðinu og tvo í kvennaliðinu. Ef við ætlum að berjast um titla þá er þetta raunveruleiki sem við þurfum að sætta okkur við til næstu ára. Það er okkar einlæga von að við getum áfram byggt grindvískan körfubolta á uppöldum leikmönnum. Við þurfum að hlúa afar vel þeim efnilegu leikmönnum sem koma upp hjá félaginu. Stefnan er þó skýr – við ætlum okkur að vera í fremstu röð liða í íslenskum körfubolta.
Við þurfum fleiri hendur á dekk
Nú höfum við haft starfandi framkvæmdarstjóra allra deilda í rúmt ár sem hefur verið gæfuspor fyrir UMFG. Fólk sem getur gefið tíma sinn í sjálfboðastarf fyrir félagið vex ekki á hverju strái og er þessi róður alltaf að verða þyngri og þyngri. Það hefur hjálpað okkur mikið að fá framkvæmdastjóra til félagsins og sérstaklega mér í starfi formanns. Á hverjum degi erum við að glíma við ýmis verkefni sem snúa að starfi deildarinnar og það er gott að geta leitað starfsmanna UMFG með aðstoð.
Okkur vantar þó fleiri sjálfboðaliða í kringum leiki hjá félaginu. Við viljum búa til fjölskylduvænt umhverfi á okkar heimaleikjum, fá meiri stemmningu og enn betri umgjörð. Endilega klukkið okkur ef þið hafið áhuga á að vera með!
Nýr keppnisvöllur
Það sér fyrir endann á uppbyggingu á okkar nýja keppnissal. Á næsta tímabili munum við leika okkar heimaleiki í nýjum sal, í nýrri stúku og með nýjum tækjabúnaði. Þetta verður mikil bylting fyrir okkur sem félag. Ég viðurkenni að ég hef haft orð á því á samfélagsmiðlum um hversu seint þetta er að ganga en ég er maður akkorðs og vil að hlutirnir gangi hratt og örugglega fyrir sig. Núna get ég aðeins róað mig niður því þetta virðist vera komið á fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir næsta ár og stutt í að við spilum í nýju húsi. Hrós á stjórnendur sveitarfélagsins fyrir að klára þetta mikilvæga verkefni.
Endurnýjað umboð
Ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem ég var sýnt með endurkjöri formanns á síðasta aðalfundi deildarinnar. Ég trúi á heiðarleika í starfi og þegar maður setur eitthvað gott út í kósmósið þá kemur alltaf eitthvað gott tilbaka. Við fengum líka tvo fyrrverandi leikmenn inn í stjórn í þeim Bergi Hinrikssyni og Guðmundi Ásgeirssyni. Þeir koma með reynslu og þekkingu inn í starfið sem mun hjálpa okkur mikið. Þeir komu í stað Heiðars Helgasonar og Sigurðar Gíslasonar. Mig langar líka að þakka Sigga vini mínum fyrir stórkostlegt framlag til körfuknattleiksdeildarinnar á síðustu árum. Hann segist vera í fríi frá þessu sökum eldgossins en fyrst það er búið þá getur nú ekki verið langt í að við endurheimtum drenginn. Heiðari má einnig þakka fyrir handlagin störf en hann er okkur enn innan handar sem er afar gott fyrir okkur.
Það voru blikur á lofti fyrir þennan aðalfund og því er það okkur mikilvægt að fá þennan mikla stuðning í að halda áfram á þeirri braut sem vorum byrjuð að feta sem stjórn. Við fórum mjög jákvæð inn í veturinn og það hefur verið gaman að fylgjast með gengi liðanna í vetur og finna þennan mikla stuðning í samfélaginu okkar. Ég hef ekki ennþá hitt þann einstakling sem er ekki ánægður með hvernig allt lítur út, auglýsingar fyrir leikina, umgjörðin og andrúmsloftið.
Mig langar að þakka Agli Birgissyni fyrir frábæra vinnu í kringum samfélagsmiðlanna okkar. Við gerðum við hann samning og þið hafið séð myndirnar og vídeóin sem hann er að gera fyrir marga leikina hjá okkur, gjörsamlega stórkostlegt.
Að lokum
Með jákvæðni og óbilandi trú að leiðarljósi höldum við áfram og við ætlum okkur stóra hluti, stundum stærri en okkur tekst að klára en það er ágætis mottó að setja markið hátt. Trúin flytur fjöll og á næsta ári ætla stelpurnar að keppa um titil og strákarnir líka! Stelpurnar eru staddar rétt undir miðri deild og líta betur út með hverjum leiknum. Strákarnir eru þriðja sæti enda fóru þeir vestur og mættu ofjarli sínum og töpuðu þar sínum öðrum leik á tímabilinu. Vonandi að fall sé fararheill!
Vonandi sjáum við ykkur sem flest í HS Orku Höllinni í vetur!
Áfram Grindavík!
Ingibergur Þór,
formaður Körfuknattleiksdeildar UMFG.
Grein í Leikjaskrá Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur 2021