Flottur sigur í generalprufunni

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík vann flottan sigur í generalprufnni fyrir lokabaráttuna sem framundan er en síðasta umferðin í Iceland Express deildinni var leikin í kvöld.  Í heimsókn í Röstina komu Stjörnumenn sem fyrir umferðina voru með jafnmörg stig og KR og Þór Þorlákshöfn og höfðu því að miklu að keppa.  Við hins vegar höfum ekki haft að neinu sérstöku að keppa síðan við tryggðum deildarmeistaratitilinn fyrir lifandis löngu síðan og þess vegna var þess sigur í kvöld, verulega flottur að mínu mati.

Leikurinn var í járnum mest allan tímann en Stjörnumenn ívið sterkari eftir að Grindavík hafði verið fljótari upp úr startblokkunum.  13-6 sást í upphafi en svo tók Stjarnan að skína skærar og leiddu þeir eftir fyrsta fjórðung, 26-22.  Sá frábæri varnarleikur sem sást hjá Grindvíkingum í síðustu umferð á móti Njarðvík sást sem sagt ekki til að byrja með í kvöld.  Vörnin tók svo að herðast og tóku Grindvíkingar annan fjórðung 18-15 og staðan í hálfleik því 40-41 fyrir Stjörnuna.  Mest bar á Renato Lindmets, Justin Shouse og Keith Cothran og voru þeir allir komnir yfir 10 stig í hálfleik en Giordan Watson sá eini í Grindavík sem hafði náð 2-stafa tölu en hins vegar voru 8 leikmenn Grindavíkur komnir á blað en Páll Axel og Þorleifur voru ekki í þeim fríða flokki.

Sama barátta var svo uppi á teningnum í seinni hálfleik og hart barist.  Jafnt var í lok þriðja leikhluta, 60-60 þegar Þorleifur Ólafsson komst loks á stigaskorunarblaðið með glæsilegustu körfu þessa tímabils en Lalli stóð þá við eigin 3-stiga línu og henti boltanum rakleitt yfir allan völlinn og beint ofan í!  Hvers vegna skýtur Lalli ekki meira af þessu færi????…..

Grindavík tók góða rispu í upphafi loka leikhlutans og kom forskotinu upp í 9 stig og þann mun náðu Stjörnumenn aldrei almennilega að brúa þótt oft hafi þeir gert heiðarlegar tilraunir til þess.  9 stiga Grindavíkursigur því staðreynd.

Giordan Watson var besti leikmaður Grindavíkurliðsins í kvöld og sá eini sem almennilega komst í gang í stigaskoruninni, með 24 stig.  Hann var með frábæra nýtingu (5/5 í 2-stiga og 4/7 í 3-stiga, 2/2 í vítum)  Auk stiganna gaf hann 8 stoðsendingar.  Sigurður Þorsteins var sá eini sem fór yfir hinn rómaða 10 stiga múr, með 12 stig.  10 leikmenn Grindavíkur komust á blað.  Það vakti athygli undirritaðs hversu ótrúlega hart Stjörnumenn fengu að spila á J´Nathan Bullock en um tíma hélt ég að Renato Lindmets væri á einhverjum mögnuðum sérsamningi hjá dómurunum…..  Það var hreint lygilegt að sjá hvernig Lindmets fékk að berja á Bullock án þess að dómararnir gerðu neitt.  

Renato var sterkastur Stjörnumanna með 24 stig og 9 fráköst.  Hann er þræl sterkur greinilega og öflugur varnarmaður en komst að mínu mati eins og áður sagði, upp með að leika vörnina of öfluga á tímum í kvöld.  Justin Shouse skoraði 21 stig og gaf 7 stoðsendingar og Keith Cothran var sá síðasti til að mölva 10 stiga múrinn, með 14 stig.

Ljóst eftir þessa orrystu að Grindavík mætir Njarðvíkingum í 8-liða úrslitunum og Stjarnan mætir Snæfelli. Fyrirfram telja eflaust margir að rimma nágrannanna af Suðurnesjunum verði fljót afgreidd en Njarðvíkingar ætla örugglega að sýna Grindvíkingum í tvo heimana!  Ómögulegt að spá fyrir um niðurstöðu í rimmu Stjörnunnar og Snæfells og ljóst að þar verði hart barist.

Úrslitakeppnin hefst fimmtudaginn 29. mars með 2 leikjum og 2 leikir verða svo daginn eftir.  Ekki er búið að gefa út leikjadagskrána en hún mun væntanlega birtast á heimasíðu KKÍ á morgun.