Flott byrjun

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Þriðja umferð Iceland Express deildar karla hefst á morgun og mæta okkar menn ÍR á heimavelli. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Ég ætla aðeins að rýna í leikinn.

ÍR-ingar eru Kanalausir ef svo má að orði komast því báðir útlendingarnir þeirra eru með evrópskt
vegabréf, þeir Nemanja Sovic og James Bartolotta. Þeir eiga því að geta átt heilan helling inni ef þeir
nýta sér Kanaígildin tvö sem í boði eru.

ÍR-ingar voru liðið til að vinna (team to beat…) undir lok síðustu leiktíðar og voru gríðarlega óheppnir
að vinna ekki Keflavík í 8-liða úrslitunum en byrjun þeirra á þessari leiktíð hefur kannski ekki
verið í anda þeirrar síðustu en þeir unnu Fjölni í fyrsta leik en töpuðu svo á móti nýliðum Þórs frá
Þorlákshöfn í annarri umferð.

Sovic og Bartolotta eru lykilmenn ÍR og hafa verið stigahæstu leikmenn liðsins og einnig verið duglegir
í fráköstunum. Sveinbjörn Claesen er mjög góður leikmaður á góðum degi og Kristinn Jónasson
sömuleiðis.

Fyrirfram gætu margir litið á þennan leik sem auðveldan fyrir okkur en ÍR er sýnd veiði en ekki gefin
og skemmst er að minnast leiksins á móti þeim í Seljaskóla í fyrra en þá niðurlægðu þeir okkur….

Af okkur er allt gott að frétta og virðist liðið vera ansi óárennilegt fyrir veturinn. Nokkuð ljóst að
við erum hvergi nærri því að vera eins góðir og við eigum að geta orðið því fullt af leikmönnum eiga
helling inni og nýr Kani bættist í hópinn sama dag og leikurinn á móti Fjölni var og segja fróðir menn
mér að þar fari mjög spennandi leikmaður sem eiga eftir að verða mjög góður í vetur!

Breiddin hjá okkur hefur sjaldan eða aldrei verið betri og hefur Helgi rúllað vel á hópnum. Nú er
bara að fylgja eftir þessari góðu byrjun á tímabilinu og komast í 3-0 og vera áfram á toppnum.
Pistlahöfundur í leik okkar manna á móti Fjölni í síðustu umferð, hafði orð á góðri mætingu
Grindvíkinga í Grafarvoginn og þykist ég vita að sveitungar mínir muni ekki láta sitt eftir liggja
varðandi leik kvöldsins. Ekki verra ef flestir ef ekki allir sem ætla að koma, breiði út fagnaðarerindið
og taki 1-2 með sér.

Áfram Grindavík!