FINALS

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Á morgun hefst lokabaráttan í Iceland Express deild karla þegar Grindavík og Þór Þorlákshöfn mætast. 

 Þar sem Grindavík er deildarmeistari höfum við heimaleikjaréttinn en svona lítur leikjaplanið út:

Leikur 1 í Röstinni Grindavík mánudaginn 23.apríl kl. 19:15

Leikur 2 í Þorlákshöfn fimmtudaginn 26. apríl kl. 19:15

Leikur 3 í Grindavík sunnudaginn 29. apríl kl. 19:15

Leikur 4 ef hans gerist þörf, í Þorlákshöfn miðvikudaginn 2 maí

Leikur 5 ef hans gerist þörf, í Grindavík föstudaginn 4. maí.

Þór vann KR 3-1 og Grindavík vann Stjörnuna sömuleiðis 3-1.  

Grindavík varð fyrir miklu áfalli í lokaleiknum gegn Stjörnunni þegar Ólafur Ólafsson meiddist illa og þykir mér ástæða til að þakka Teiti Örlygssyni, þjálfara Stjörnunnar, kærlega fyrir sín frábæru viðbrögð en Óli var varla lentur eftir meiðslin þegar Teitur var mættur á vettvang og hlúði að Óla.  Sannkallaður drengskapur sem Teitur sýndi þarna og á hann heiður skilinn!

Aftur að rimmunni.

Þórsarar eru ekki komnir í FINALS vegna einhverra tilviljanna, við skulum bara hafa það á hreinu!  Þeir slógu út Íslandsmeistara síðustu tveggja ára á leið sinni í úrslitin og ljóst að við þurfum að eiga algera toppleiki ef við ætlum að vinna þá!

Þórsarar þurftu að skipta út stóra Kananum sínum eftir rimmuna við Snæfell í 8-liða úrslitunum en Matthew Hairston meiddist og í staðinn kom Josep Henley.  Þetta viriðist hafa verið lán í óláni því Henley virðist henta Þórsurum betur en Hairston.  Henley er víst gamaldags ruslakarl og er bara inni í teig en Hairston var nokkuð fyrir að fara fyrir utan og skjóta.  Þar sem Henley hefur bara verið inn í teig hefur opnast frekar fyrir Gumma Jóns og Darra Hilmars sem hafa blómstað eftir þessi skipti.  Þórsarar eru með einn besta Kana deildarinnar, Darrin Govens og ljóst að við þurfum að halda honum í skefjum.  Janev hefur verið að spila vel sömuleiðis og þeir síðastnefndu sem mynda þennan 7 manna kjarna sem Benni hefur verið að spila á, eru heimamennirnir Grétar Erlendsson og Baldur Ragnarsson.

Sem fyrr sagði lentum við í áfalli þegar Óli meiddist en nú reynir fyrst almennilega á þessa breidd sem við höfum verið að gorta okkur af í allan vetur!  Aðrir leikmenn fá núna sénsinn og sumir munu þurfa bæta mínútum á sig. 

Það er ljóst að við stuðningsmennirnir þurfum að standa okkar plikt því Græni dreki þeirra Þórsara hefur staðið sig frábærlega í vetur og eru þeir að garga “Þórsarar” allan leikinn!!  Þessu þurfum við Grindjánar að vera tilbúnir að mæta og skora ég á ykkur að mæta í gulum lit, það eykur á samkennd okkar og stemningu.  Stuðningstextar verða prentaðir á gul blöð og skal stúkan því skarta sínu gulasta annað kvöld!

Vakin er athygli á því að stuðningsmenn ætla að hittast á Salthúsinu og verða grillaðir hamborgarar eins og fyrir síðasta heimaleik.  Grillstjórinn Gauti lofar betra skipulagi og verða fyrstu borgararnir komnir á grillið um 17:30.

Glænýtt myndband frá Agli verður frumsýnt á Salthúsinu kl. 18:30.  Það myndband mun kveikja rækilega upp í okkur stuðnginsmönnunum sem göngum síðan fylktu liði í Röstina og hjálpum okkar mönnum að landa sigri og komast strax í bílstjórasætið í þessari seríu!

Áfram Grindavík!