Elma Dautovic semur við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hefur samið leikmanninn Elma Dautovic sem mun leika með félaginu í vetur í Subwaydeild kvenna. Elma er 21 árs gömul og kemur frá Slóveníu.

Elma er 187 cm á hæð og leikur stöðu framherja. Hún kemur til liðs við Grindavík frá Sokol HK í Tékklandi þar sem hún lék á síðustu leiktíð. Hún hefur jafnframt leikið með yngri landsliðum Slóveníu sem hafa verið mjög öflug á undanförnum árum.

„Ég er mjög spenntur að fá Elmu til liðs við okkur. Hún kemur með aukna hæð inn í liðið. Elma er einnig fjölhæfur leikmaður með gott skot. Hún á eftir að styrkja liðið á marga vegu og mun vonandi passa vel inn í okkar lið,“ segir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

Elma er mætt til landsins og verður vonandi komin með leikheimild á miðvikudag þegar Grindavík mætir Íslandsmeisturum Njarðvík á útivelli.

Áfram Grindavík!