Ekki mikil spurning um einmanaleikann á toppnum

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavíkingar átti ekki í miklum vandræðum með að tylla sér einir á topp Iceland Express deildar karla, eftir 85-65 sigur á Tindastólmönnum sem enn eru án sigurs í deildinni.

Fróðir menn sögðu mér að mikill munur hafi verið á leik Tindastólsmanna frá því sem verið hefur og ljóst að Bárður hefur nýtt reynsluna og kunnáttuna sem hann öðlaðist á Hrafni Sveinbjarnarsyni til hins ýtrasta…

En að öllu gamni slepptu þá hleyptu Stólarnir okkur aldrei alveg frá sér en eftir 1. leikhluta stefndi allt í leik kattarins að músinni því þá leiddum við 29-13.  En þá kom gamla, “góða” værukærðin upp í mönnum og Stólarnir gengu á lagið og hleyptu okkur svo aldrei langt í burtu og í upphafi 4. leikhluta munaði t.d. ekki nema 10 stigum og þeir sem eitthvað vit hafa á íþróttinni vita að slíkur munur getur gufað upp á augabragði.  En aldrei hafði maður teljandi áhyggjur af því að sigurinn myndi ekki enda á réttum stað og munurinn jókst heldur undir það síðasta og lokatölur eins og áður sagði, 85-65.

Helgi sagði í viðtali eftir leikinn að þetta hafi ekki verið einn af betri leikjum okkar til þess en það er auðvitað eitt einkenna góðra liða að vinna slæmu leikina.

Mér fannst sóknin inn á á milli frekar tilviljanakennd en oft sáust líka góðir taktar og góð opin skot urðu til út úr sóknarfléttum.  Helgi er að innleiða nýjan sóknarleik og munum við eflaust bæta þann þátt í allan vetur og m.v. hvað liðið spilaði oft á tíðum góða vörn, þá einfaldlega hljóta önnur lið að skjálfa nett á beinunum….

Siggi Þorsteins var mjög öflugur í gær, skoraði að vild í 1. leikhluta og endaði svo með 21 stig og var stigahæstur okkar manna en auk þess tók hann 13 fráköst, stal 5 boltum og varði 2.  Frábær leikur hjá honum og greinilegt að hann er á réttri leið í Gula búningnum.

Mér finnst Giordan vera mjög flottur leikmaður!  Snerpan gríðarleg og yndi að horfa á hann smeygja sér á milli varnarmannanna.  Spekingarnir hafa haft á orði hvernig okkur muni reiða af þegar herðir að og við lendum í jöfnum leik í lokin, hver taki af skarið í sóknarleiknum.  Mér sýnist Giordan vera vel í stakk búinn til að láta góða hluti gerast við slík tækifæri því bæði er hann baneitraður fyrir utan 3-stiga línuna og mjög öflugur í að keyra upp að körfunni en ég gær setti hann 17 stig og gaf sínar 7 stoðsendingar en eins og ég segi, ég hafði allan tímann á tilfinningunni að hann gæti miklu, miklu meira.

Ég hef ekki mikinn áhuga á að reyta J´Nath til reiði….  Ég hitti kappann í gær og honum vil ég ekki mæta reiðum í dimmu húsasundi…..  Þessi leikmaður gæti reynst alger happafengur fyrir okkur því hann er nautsterkur og þrælfljótur líka.  Hefur gott auga fyrir stoðsendingum og ég er viss um að hann mun bara vaxa í vetur og gleymum ekki að það tekur oft svolítinn tíma fyrir þessa menn að aðlagast breyttum aðstæðum.  En hann er verulega spennandi fyrir baráttuna sem er framundan.  Í gær setti hann 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Paxel er kominn í breytt hlutverk en í gegnum árin hefur hann verið með fyrstu mönnum á byrjunarliðskortið.  Nú er hann fyrsti maður af bekknum og er ég ekki frá því að þetta gæti reynst gífurlega sterkt þegar fram í sækir.  Er eitthvað lið sem getur státað af því að koma með einn besta íslenska sóknarmanninn svona af bekknum????  Paxel mun eflaust enda flesta leiki en hingað til hefur ekki reynt á jafna leiki í lokin.  En Paxel virkar sprækur og virðist vera búinn að jafna sig á meiðslunum sem hrjáðu hann á undirbúningstímabilinu en hann á pottþétt heilan helling inni.  Kappinn setti 15 stig í gær.

Þetta var fyrsti leikurinn sem ég sé í vetur og mun ekki berja liðið augum aftur fyrr en 24. nóvember en ég var sennilega orðinn svo góðu vanur að ég beið alltaf eftir troðslu frá Óla!  En hann fékk heldur betur að smakka á eigin meðali þegar Trey Hampton tróð með tilþrifum yfir hann í upphafi leiks.  Ég hefði viljað heyra hvað þeirra fór á milli eftir það en ég átti alltaf von á að Óli myndi launa honum lambið gráa þótt síðar yrði….  En auk troðsla hefur Óli oft glatt okkur með flottum blokkum og hann brást ekki í þeirri deildinni í gær þegar hann blokkaði hinn Kanann, Maurice Miller.  Setti upp Mutumbo-fingurinn en það virtist fara illa í brjóstið á dómurum leiksins sem veittu honum smá tiltal, ekkert má orðið gera….

Aðrir leikmenn höfðu hægar um sig og ljóst að liðið er í gífurlegum öldudal fyrst einungis 4 leikmenn fóru yfir 10 stiga múrinn fræga…..  Nei, nei, mótstaðan var bara ekki það mikil að á breiddinni góðu þyrfti að halda en leikmenn verða að reyna halda einbeitingunni allan leikinn og svona værukærð eins og í gær mun bíta þá í rassinn fyrr eða síðar!  Hvenær höfum við séð okkur menn taka svona leiki eins og í gær og flysjað þá ærlega???

Næsti leikur er í Lengjubikarnum en þá koma Fjölnismenn í heimsókn.  Leikurinn er á mánudag og hefst kl. 19:15

Áfram Grindavík!