Einir á toppinn??

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Eftir leiki gærkvöldsins er ljóst að Grindavík getur tyllt sér eitt á topp Iceland Express deildar karla, þegar Tindastóll kemur í heimsókn í kvöld.

KR vann Stjörnuna og þar með erum við eina taplausa liðið í deildinni en við eigum eftir að leika leikinn í 4. umferð en hann er einmitt í kvöld kl. 19:15 í Röstinni á móti Tindastóli frá Sauðárkróki.

Tindastóll hefur fyrst liða skipt um þjálfara en Borce Ilievski sagði starfi sínu lausu eftir 3. tapleikinn í röð í Iceland Express deildinni.  Sauðkræklingar voru ekki lengi að fylla í skarðið og í starfið valdist enginn annar en sjarmatröllið og körfuboltasnillingurinn úr Stykkishólmi, Bárður Eyþórsson!  Bárður hefur marga fjöruna sopið í íslenskum körfuboltaheimi og er hokinn af reynslu og mun örugglega reynast happafengur fyrir Skagfirðinga.  Ef ég þekki hann rétt þá verður hann ekki lengi að snúa gengi Stólanna við en við skulum vona að hann bíði aðeins lengur með það….

Þrír leikmenn eru mest áberandi hjá Stólunum, Kanarnir Trey Hamton (21,3 stig og 10,3 fráköst), Maurice Miller (19,7 stig og 6 fráköst) og Svavar Birgisson (16,7 stig).

Af okkur er allt hið besta að frétta.  Langt er síðan eða jafnvel aldrei hefur það gerst, að 8 leikmenn í sama liðinu séu við 10 stiga múrinn í meðaltalsskori…  Það verður spennandi að sjá hvernig okkar mönnum mun reiða af þegar virkilega herðir að og við skulum vona að það verði ekki í kvöld.

Áfram Grindavík!