EC Matthews til liðs við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hafa samið við bandaríska bakvörðinn EC Matthews og mun hann leika með félaginu það sem eftir lifir leiktíðar. Matthews er 26 ára og lék síðast með Oliveirense í portúgölsku deildinni á tímabilinu 2020-2021. Þar var hann með tæp 16 stig að meðaltali í leik í þessari sterku deild.

Matthews er 196 cm á hæð og lék með Rhode Island háskólanum á árunum 2013-2018. Hann lék einnig tvö tímabil í NBA G-deildinni þar sem hann lék með Raptors 905 og einnig Erie Bayhawks.

EC átti upphaflega að ganga til liðs við Grindavík í upphafi októbermánaðar en varð þá fyrir lítilsháttar meiðslum sem hélt honum frá keppni í 3 vikur. Hann er búinn að ná sér að fullu og standa vonir til við að hann muni styrkja lið Grindavíkur í baráttunni í Subwaydeildinni. EC er væntanlegur til landsins um helgina.

Koma EC Matthews til Grindavíkur þýðir að Travis Atson mun hverfa á braut. Við hjá Grindavík viljum koma á framfæri kærum þökkum til Travis fyrir hans framlag til liðsins. Atson lagði sig allan fram, á mikið hrós skilið og skilaði góðu framlagi fyrir félagið í þremur góðum sigurleikjum. Travis mun dvelja áfram í Grindavík næstu daga á meðan hann finnur sér nýtt lið til að leika með.

Grindavík býður EC Matthews velkominn til félagsins og væntum við mikils af komu hans til Grindavíkur!