Draumaúrslitaleikur í uppsiglingu!!

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Eftir dapra síðustu tvo leiki sýndu Grindvíkingar virkilega hvað í þá er spunnið þegar þeir lögðu Hauka í undanúrslitum Powerade-bikarsins, 70-82.

Frábær vörn í lokaleikhlutanum skóp þennan sigur en þá
skoruðu Haukar einungis 13 stig.

Jafnt var á öllum tölum fram í byrjun 4.leikhluta en þá skyldu leiðir. Eflaust spilaði inn í að Haukarnir
léku á sínum bestu mönnum allan leikinn og eflaust var farið að draga af þeim en það breytir ekki
þeirri staðreynd að vörn okkar manna var frábær þá og loks þekkti ég mína menn!

Eins og margir eflaust, hafði ég mínar efasemdir með nýjan kanann en hann sýndi heldur betur að
þær efasemdir voru óþarfar! Kappinn skoraði 25 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Hann er
einfaldlega baneitruð skytta og ég er viss um að hann á eftir að sýna okkur mun meira.

Paxel rak heldur betur af sér slyðruorðið frá því í síðasta leik og steig heldur betur upp í þessum stóra
og mikilvæga leik. Hann skoraði 21 stig og leiddi sína menn áfram, öðrum fremur þegar við sigldum
fram úr Haukunum í lokaleikhlutanum. Frábær leikur hjá Paxel!

Lalli átti stórleik, 17 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta! Spilaði frábæra vörn og barðist
eins og ljón.

Óli bróðir hans skal alltaf eiga einhver „highlight moment“ en í þessu áhlaupi okkar manna í
lokaleikhlutanum þá varði hann snilldarlega skot en í heildina varði hann 4 skot og var hæstur í þeim
flokki og tók auk þess flest fráköst okkar manna eða 9. Það fór um marga þegar hann lenti illa á
bakinu og þurfti hann frá að hverfa í smá stund en sem betur fer kom hann sterkur upp í lokin og
kláraði leikinn með style!

Ryan var óheppinn með villur í fyrri hálfleik og spilaði því ekki mikið þá en var sterkur og þá
sérstaklega varnarlega í seinni hálfleik en tölur hans í kvöld voru 4 stig, 7 fráköst, 2 varðir boltar og 1
stolinn.

Næstan skal nefna Helga Björn sem leysti Ryan frábærlega af í fyrri hálfleik og spilaði frábæra vörn á
G. Robinson hjá Haukunum. Helgi er greinilega nautsterkur og má pottþétt gefa þessum strák meiri
séns, sérstaklega þegar hann grípur tækifærið svona báðum höndum eins og hann gerði í kvöld.

Aðrir létu minna á sér kveða en staðreynd málsins er sú að frábær Grindavíkursigur er í höfn
og við getum því beðið spennt eftir draumaúrslitaleiknum á móti Vesturbæjastórveldinu, KR.
Stuðningsmenn þeirra eru þekktir fyrir að skríða úr öllum fylgsnum þegar mikið ber við og má ljóst
þykja að þeir muni fjölmenna í höllina laugardaginn 19.febrúar og því verðum við Grindvíkingar að
verða tilbúnir að mæta! Við tekur undirbúningur stjórnar fyrir þennan stóra dag og er ljóst að mikið
verður um húllumhæ í kringum viðburðinn og verður það betur kynnt hér á heimasíðunni síðar.

Til hamingju með farseðilinn í höllina, Áfram Grindavík!!