Deildarmeistarar – ekkert spurningamerki!

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Það þurfti ekki að setja nein spurningarmerki við pistil kvöldsins, Grindvíkingar eru orðnir

DEILDARMEISTARAR!

Þetta varð staðreynd eftir seiglusigur á KR á heimavelli í kvöld en lokatölur urðu 87 – 85.  

Leikurinn var í járnum allan tímann og munaði aldrei miklu en lokamínúturnar voru okkar en í stöðunni 81-84 fyrir KR setti besti leikmaður Grindavíkur í kvöld, Giordan Watson niður erfitt 3-stiga skot rétt áður en skotklukkan rann út og við þá körfu fengum við byr í seglin og kláruðum leikinn merkilegt nokk, á vítalínunni en vítanýtingin hafði verið ansi döpur allan leikinn en við enduðum rétt yfir 50% nýtingunni sem telst lélegt!

Þetta er fyrsti leikurinn sem ég sé í nokkuð langan tíma og get ég ekki sagt að mínir menn hafi heillað mig upp úr skónum en samt verður að hrósa liðinu fyrir að vinna svona leik þegar mikið var í húfi, án þess að spila vel og í raun var liðið held ég langt frá sínu besta.  Ég hef áður minnst á vítanýtinguna en auk þess tóku KR-ingar allt of mikið af sóknarfráköstum en við erum það gott frákastalið að við eigum ekki að láta það gerast.

Watson var okkar besti leikmaður í kvöld með 25 stig og 4 stoðsendingar.  Bullock skoraði “bara” 23 stig og tók “bara” 9 fráköst, hvenær náði hann síðast ekki tvöfaldri tvennu????  Ryan og Lalli skoruðu báðir 9 stig.

Það er mjög sterkt að klára deildina í fyrstu atrennu og það á móti sterku liði KR.  4 leikir eru eftir og er kominn tími til að liðið fari að koma sér í gírinn og spila sinn besta bolta og koma á bullandi siglingu inn í úrslitakeppnina.  Það þýðir ekkert að slaka á núna þótt þessi titill sé í húfi því það getur ekki gert sjálfstraustinu gott að mæta með nokkur töp á bakinu þegar alvaran byrjar!  Liðið ætti að fara ná sínum mesta styrk en Paxel var lengi frá í vetur og svo bættist Ryan í hópinn en núna erum við með heilan mannskap og er ekkert að vanbúnaði að setja í 5. gírinn.

Áfram Grindavík!