Deildarkeppninni lokið.

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Deildarkeppni Iceland Express lauk í kvöld

og máttum við Grindvíkingar þola tap á móti nágrönnum okkar úr Keflavík, 86-71.  Leikurinn virðist hafa klárast í fyrri hálfleik en eftir hann munaði 20 stigum, 50-30!  Við réttum aðeins úr kútnum í síðari hálfleik en ógnuðum aldrei sigri Keflvíkinga.  Sem fyrr þá var ég ekki á leiknum og get því ekki tjáð mig nema út frá tölfræðinni.  Ef rýnt er í hana þá er ljóst að allir lykilmenn brugðust en Óli Ól var bestur okkar manna skv. tölfræðinni með 15 stig og 9 fráköst.  En dveljum ekki lengur við þennan leik.  Áður en við gerðum breytingarnar um daginn þá hefði ég nokkuð feginn tekið 3 sigrum af 4 í lokaleikjunum og það fengum við.

Önnur úrslit voru á þessa leið:  KR – Snæfell 116-93.  Njarðvík – Tindastóll 96-84.  Fjölnir – ÍR 96-92.  Haukar – KFÍ 88-68.  Hamar – Stjarnan 74-65.

Þessi úrslit koma mér ekki á óvart, Snæfell og ÍR höfðu ekki að neinu sérstöku að keppa.  Reyndar átti maður kannski ekki von á að Hamar myndi vinna Stjörnuna og hvað þá kanalausir en bæði þessi lið höfðu ekki að neinu að keppa og því mátti búast við öllu.  Gamall vinur okkar, Brenton Birmingham klæddist Njarðvíkurtreyjunni og virkar í fínu formi og skoraði 14 stig á rúmum 13 mínútum.

Deildarkeppni er þá lokið og við tekur úrslitakeppni sem fyrirfram er mjög spennandi!  Þessi lið mætast:

Snæfell – Haukar

KR – Njarðvík

Keflavík – ÍR

Grindavík – Stjarnan.

Ansi áhugaverðar rimmur og spái ég fyrirfram 3 rimmum hið minnsta í oddaleik!

Ég skrifa meira um úrslitakeppnina og rimmu okkar við Stjörnuna þegar nær dregur úrslitakeppni en á morgun kemur í ljós hvenær leikirnir fara fram.

Áfram Grindavík!