DeAndre Kane semur við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hefur gert samning við bandaríska leikmanninn DeAndre Kane um að leika með félaginu á næstu leiktíð í Subwaydeild karla. Kane er með ungverskt vegabréf og mun því leika sem Evrópumaður með Grindavík á komandi tímabili.

DeAndre Kane er fjölhæfur leikmaður sem getur leikið bæði sem bakvörður og framherji. Hann er 33 ára gamall og 196 cm á hæð.

DeAndre Kane á að baki frábæran feril í Evrópu og hefur leikið með félögum í Rússlandi, Þýskalandi, Belgíu, Spáni, Ísrael og Grikklandi. Hann hefur tvívegis orðið meistari í Ísrael með Maccabi Tel Aviv. Eftir frábæran háskólaferil var Kane spáð velgegni í NBA og æfði meðal annars með LA Lakers og Atlanta Hawks áður en hann fór til Evrópu. Hann hefur leikið í mörgum af sterkustu deildum Evrópu og leikið í EuroCup.

Kane hefur síðustu ár dvalið í Bandaríkjunum og keppt þar í The Basketball Tournament en það er opið mót sem er sýnt á ESPN þar sem verðlaunafé fyrir sigurliðið nemur 1 milljón dala. Kane hefur 4 sinnum verið í sigurliði í þessu móti.

„Við erum búin að vera lengi á eftir Kane enda er þetta frábær leikmaður sem gæti breytt ansi miklu fyrir okkar lið á næsta tímabili. Það er langt síðan svona stór prófíll hefur komið til okkar og við erum í skýjunum að þetta hafi loksins gengið eftir. Kane hefur alla burði til að vera einn besti leikmaður deildarinnar og við getum ekki beðið eftir að fá hann til okkar,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður DeAndre Kane velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann í búningi Grindavíkur á næstu leiktíð!

Áfram Grindavík!