Dauft kvöld….

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Þótt Deildarmeistarnir sem voru krýndir í kvöld, ættu að eiga þennan pistil með húð og hári, þá ætla ég að hafa mynd af bikarmeisturum 9. flokks en þeir voru líka heiðraðir í kvöld.  

 

Það mikilvægasta í kvöld var líklega undirskrift á nýjum samningum við hin frábæru fyrirtæki, Stakkavík, Vísi og Þorbjörn.

Rúsínan í pylsuendanum átti svo að vera glæstur sigur okkar manna á Snæfelli og afhending á Deildarmeistaratitili á eftir.  Deildarmeistaratitillinn kom svo sem í hendurnar á okkur en það var kannski með beisku bragði í munni sem honum var lyft…..

 

Ég er ekki það mikill spekingur í þessum fræðum, að ég geti komið auga á hvað er að angra okkar menn þessa dagana.  Eða er kannski bara ekkert að??  Margir skilja andleysið sem virðist vera ríkjandi eftir að Deildarmeistaratitilinn var tryggður en aðrir vilja meina að eitthvað sé að og alla gleði vanti í liðið.  Líklega er sannleikskorn í báðum þessum pælingum.

Við skulum nú samt ekki gleyma að okkur vantaði Giordan Watson í kvöld og munar nú heldur betur um minna.  En þá ætti einmitt að vera tækifæri fyrir aðra að sýna sig og sanna og er óhætt að segja að það tækifæri hafi verið illa nýtt í kvöld…..  Lalli leysti sitt hlutverk vel af hendi en við máttum illa við að vera án hans í kvöld eins og berlega kom í ljós í fyrri hálfleik þegar við töpuðum um tíma, fleiri boltum en við komum stigum á töfluna….

En kannski erum við bara svona góðu vön!  Kannski er engin ástæða til að örvænta en samt finnst mér leikur liðsins vera ansi luralegur þessa dagana en eflaust mun það lagast þegar menn mæta rétt gíraðir til leiks en er ekki bara kominn tími til að fara ýta á “on” takkann??  Það verður ekkert auðveldlega ýtt á hann um leið og úrslitakeppnin hefst og eins og við vitum þá getur 1. umferðin verið mjög varasöm, ekkert má út af bregða!  Þess vegna gengur ekki að mæta með hálfum hug þá til leiks.

Ég ætla að leyfa mér að giska á að Watson verði með í Njarðvík á sunnudagskvöldið og er ljóst að þar verður um enn einn hörkuleikinn að ræða því Njarðvík er í bullandi baráttu um að komast inn í úrslitakeppnina.  Við þurfum að mæta í þessa síðustu 2 deildarleiki með blóðbragð í munni og fara koma okkur í gírinn fyrir úrslitakeppnina.  Þetta á bæði við um leikmenn en ekki síst um mig, þig og ALLA stuðningsmenn!!!  Við erum alltof sofandi í stúkunni og verðum að fara koma okkur í gamla, góða Grindjánagírinn!

Ég legg hér með til að allir mæti í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga og HVETJI sína menn og hjálpi til við að koma liðinu aftur á sigurbraut.  Við þurfum að enda deildarkeppnina á “run-i”!

Áfram Grindavík