Dapurt

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Hvað skal segja eftir þennan leik í kvöld?  

 

Verulega dapurt á báðum endum vallarins og það er nokkuð ljóst að ef við girðum okkur ekki almennilega í brók fyrir úrslitaleikinn á laugardag að þú mun þetta verða röndóttur dagur!

Sóknarleikur okkar var hreinasta hörmung nánast allan leikinn og á meðan vörnin er ekki þeim mun sterkari þá getur útkoman ekki orðið góð.  Að skora ekki nema 28 stig í fyrri hálfleik er náttúrulega virkilega lélegt.  Okkar menn sýndu þó lífsmark í upphafi 3. leikhluta eins og í leiknum á móti Snæfelli en við náðum aldrei almennilega að komast í gang og alltaf misstum við Stjörnumenn fram úr okkur aftur.  Leikurinn náði aldrei að verða neitt spennandi að ráði og 4.tapið í deildinni í röð, staðreynd.  Ekki beint veganestið sem við vildum fá með okkur í höllina….

Ryan var skástur okkar manna í kvöld og skilaði 2faldri tvennu, 12 stig og 11 fráköst.  Lalli var mjög góður á meðan hans naut við og hefði mátt spila meira að mínu mati.  Kevin skaut 2/12 fyrir utan 3-stiga línuna og tapaði fleiri boltum en hann gaf stoðsendingar.  Engan veginn nógu gott.

Hef ekki fleiri orð um þetta að sinni.  Nú er bara að fara í naflaskoðun og gíra sig svo upp fyrir bikarúrslitaleikinn.

Áfram Grindavík!