Bandaríski leikmaðurinn og þjálfarinn Danielle Rodriguez hefur skrifað undir samning við Grindavík og mun leika með félaginu í Subwaydeild kvenna á næstu leiktíð. Danielle er bakvörður og þekkt nafn í íslenskum körfubolta. Hún lék með Stjörnunni frá 2016 til 2019 en skipti yfir í KR tímabilið 2019-2020.
Danielle hefur starfað sem þjálfari undanfarin ár og hefur verið aðstoðarþjálfari hjá San Diego í vetur. Hún var einnig aðstoðarþjálfari hjá báðum meistaraflokkum Stjörnunnar tímabilið 2020-2021.
Dani mun einnig taka að sér þjálfun hjá yngri flokkum félagsins á næstu leiktíð og eru miklar væntingar bundnar við komu Dani inn í þjálfun hjá félaginu.
„Þetta eru frábærar fréttir fyrir körfuboltann í Grindavík,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. „Dani er frábær leikmaður, þjálfari og persóna. Hún smellpassar inn þá uppbyggingu sem er að eiga sér stað með kvennakörfuboltann í Grindavík og við getum ekki beðið eftir að hefja samstarfið. Ég er gríðarlega stoltur af því að bjóða Dani velkomna til félagsins.“
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Danielle Rodriguez velkomna til félagsins!