Daniel Mortensen semur við Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík hefur gert samning við danska leikmanninn Daniel Mortensen um að leika með félaginu á næstu leiktíð í Subway-deild karla. Daniel ætti að vera íslenskum körfuknattleiksunnendum að góðu kunnur en hann hefur leikið hér á landi síðustu tvö tímabil, fyrst með Þór og nú síðast með Haukum.

Það er ljóst að Daniel er mikill liðsstyrkur fyrir Grindavík en hann var valinn besti erlendi leikmaður deildarinnar 2022. Daniel, sem er fæddur árið 1994, er 205 cm hár framherji sem einnig getur leyst stöðu miðherja. Hann teygir völlinn vel en hann er með eindæmum skotviss og hefur verið að skjóta þristum með um 40 prósent nýtingu hér á landi. Síðustu tvö tímabil hefur hann skilað rúmum 18 stigum að meðaltali í leik og átta fráköstum.

„Það var smá fundur um hvernig við ætluðum að setja liðið saman og upp kom þetta fallega nafn, Daniel Mortensen. Það var okkur ansi fjarri þegar samtalið fór af stað 16. apríl en í morgun var skrifað undir samning þess efnis að Mortensen muni leika með okkur á næstu leiktíð. Þetta er mjög stór dagur hjá okkur en eins og áður hefur verið sagt að þá ætlum við okkur stærri hluti en á tímabilinu sem var að líða. Ég, ásamt stjórn körfuknattleiksdeildarinnar, erum gríðarlega spennt og stolt í dag,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Daniel Mortensen velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann í búningi Grindavíkur á næstu leiktíð! Heyrst hefur að grillmeistar félagsins ætli mögulega að bæta smørrebrød á matseðilinn í fyrsta heimaleik liðsins næsta haust til að bjóða hann formlega velkominn.

Áfram Grindavík
💛💙