Stjórn Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur hefur ákveðið að ljúka samstarfi sínu við Daníel Guðna Guðmundsson og hefur hann látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Grindavíkur í Subwaydeild karla. Karlalið Grindavíkur er í 6. sæti deildarinnar að loknum 17 umferðum.
Jóhann Þór Ólafsson mun stýra æfingum hjá Grindavík næstu daga þar til að ákveðið verður hver muni stýra liðinu út leiktíðina.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun og síður en svo léttvæg þar sem við kunnum einstaklega vel við Daníel. Það var einhugur hjá stjórn að gera breytingu á þessum tímapunkti,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.
Daníel Guðni tók við liði Grindavíkur fyrir tímabilið 2019/2020 en hann hafði þá áður starfað sem aðstoðarþjálfari liðsins en einnig verið aðalþjálfari hjá kvennaliði félagsins. Undir stjórn Daníels fór Grindavík í bikarúrslit vorið 2020 en tapaði í úrslitaleik fyrir Stjörnunni. Heimsfaraldur hefur sett sitt mark á þjálfaratíð Daníels hjá Grindavík. Tímabilið 2019/2020 endaði Grindavík í 8. sæti í deildinni en úrslitakeppnin var blásin af. Í fyrra hafnaði Grindavík i 6. sæti í deildinni og féll úr leik í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur vill koma á framfæri þökkum til Daníels Guðna fyrir hans framlag til félagsins á undanförum árum. Óskum við honum alls hins besta í framtíðinni.