Damier Pitts semur við Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hefur samið við bandaríska leikstjórnendann Damier Pitts og mun hann leika með félaginu út leiktíðina í Subway deild karla.

Pitts er 33 ára gamall og á að baki nokkuð farsælan atvinnumannaferil. Hann lék með KFÍ fyrir um áratug í íslensku úrvalsdeildinni og var þá með 33,5 stig að meðaltali í leik. Pitts lék í kjölfarið í nokkur ár víða í Evrópu. Meðal annars í Tyrklandi, Ítalíu, Lettlandi, Finnlandi, Portúgal og síðast í Ungverjalandi.

Pitts lék meðal annars með porúgalska félaginu SL Benfica tímabilið 2017/2018 og varð portúgalskur deildarmeistari.

„Það er ánægjulegt að fá Damier Pitts til liðs við okkur. Þetta er reynslumikill leikstjórnandi og ekki skemmir að hann þekkir nú þegar til þess að spila á Íslandi. Í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á hópnum þá var ljóst að við þurftum að fá inn leikstjórnenda og ég er mjög ánægður með að fá Pitts til félagsins,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

Koma Pitts til félagsins þýðir að David Azore hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Körfuknattleiksdeild Grindavíkur vill koma á framfæri þökkum til David fyrir hans framlag til félagsins.