Chris Caird í þjálfarateymi Grindavíkur

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Hinn enskættaði þjálfari Chris Caird hefur skrifað undir tveggja ára samning við körfuknattleiksdeild Grindavíkur. Chris mun koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla sem aðstoðarþjálfari og mun einnig sjá um styrktarþjálfun liðsins.

Þá mun Chris einnig sjá um styrktarþjálfun hjá yngri flokkum deildarinnar ásamt því að þjálfa tvo flokka og koma að yngri flokka starfinu á ýmsan hátt, en það er engin spurning að kraftar hans munu nýtast deildinni vel. Chris er að eigin sögn afar spenntur fyrir nýjum tækifærum í Grindavík og þeim metnaði sem býr í deildinni.

„Ég er spenntur að ganga til liðs við Grindavík af fjölmörgum ástæðum. Félagið býr yfir frábærri körfuboltahefð og menningu, og hefur mikinn metnað til að gera góða hluti í vetur. Ég hlakka til að vinna með báðum Jóhönnunum, bæði að læra sjálfur af þeim og hjálpa liðinu eins og ég get með öllum mögulegum ráðum. Persónulega er þetta akkúrat blandan sem ég þurfti á að halda, að vinna að fullum krafti í yngri flokkastarfinu en á sama tíma að fá tækifæri til að vera í innstu hringiðu meistaraflokks.“

Guðmundur Bragason, annar af yfirþjálfarum yngriflokka deildarinnar, er að vonum sáttur með að hafa landað samingum við Chris.

„Við yfirþjálfarar yngri flokka körfunnar erum í skýjunum með að fá Chris í okkar öfluga þjálfarateymi. Chris er einn af efnilegustu þjálfurum landsins, hann er metnaðarfullur og mun koma með nýjar víddir inn í okkar yngriflokkastarf.“

Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, er mjög glaður með að fá Chris inn í þjálfarateymi meistaraflokks sem og að vonandi lyfta yngriflokkastarfinu á enn hærra plan. „Við í stjórninni vitum að samfélagið í Grindavík mun taka hlýlega utan um Chris og fjölskylduna hans, og erum viss um að þau munu elska það að vera hér í Grindavík.“

Chris ætti að vera íslenskum körfuknattleiksunnendum að góðu kunnur, en hann hefur verið viðloðandi íslenskan körfubolta síðan 2007. Fyrst sem leikmaður en sem þjálfari síðan 2018. Síðustu fimm tímabil hefur Chris verið þjálfari Selfoss.

Áfram Grindavík
💛💙