Ballið að byrja

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Þá er komið að hápunkti keppnistímabilsins, sjálfri úrslitakeppninni!

Andstæðingur okkar Grindvíkinga er Stjarnan, lærisveinar Teits Örlygssonar.  Aðrar rimmur í 8-liða úrslitum eru Snæfell – Haukar, KR – Njarðvík og Keflavík – ÍR.  Ég læt vera að velta þeim rimmum fyrir mér en ætla samt að spá fyrir um úrslit þeirra:  Snæfell – Haukar 2-0, KR-Njarðvík 1-2 og Keflavík-ÍR 2-1.

Það var ekki hátt á okkur risið eftir bikarúrslitaleikinn 19. febrúar.  Liðið var búið að vera spila afskaplega illa og útlitið alls ekki gott.  Haldinn var fundur með Helga Jónasi og sú góða ákvörðun að mínu mati, var tekin með að láta Kevin Sims fara og fá reynsluboltann Nick Bradford aftur til liðsins en auk þess ætlaði Helgi Jónas að taka fram skóna að fullum krafti.  Nick er ekki leikstjórnandi og kannski er hæpið að þessi ákvörðun hefði verið tekin ef við hefðum séð fyrir að Helgi Jónas myndi tábrotna og Lalli sé ennþá tæpur….  En hér erum við og verðum að spila úr þeim trompum sem við höfum og að mínu mati þá erum við ennþá með þrælsterk tromp á hendi!

Mér leist orðið svakalega vel á liðið eftir 3 sigurleiki og m.a. útisigur á KR og það án Helga og Lalla sem fyrr.  Margir voru og eru sjálfsagt ennþá, hræddir um hvernig okkur takist að koma upp með boltann án þess að vera með “pure” leikstjórnanda en KR er að mínu mati eitt af betri pressuliðum landsins og okkur tókst að vinna þá.  Ég sá svo sem ekki leikinn og veit ekki hvort eitthvað bras var á okkur við að koma boltanum upp en mér er nokk sama þótt við töpum haug af boltum svo fremi sem við vinnum…. Eftir 3 sigurleiki og möguleika á 2.sæti deildarinnar, fékk liðið heldur harkalega magalendingu á móti Keflavík og er ég ekki að skilja áhugaleysið í leikmönnum sem var víst þá.  Við áttum í raun ekki roð í Keflavík og það er svekkjandi fyrst svona mikið var undir í leiknum.  Enginn af lykilmönnum fyrir utan Óla kannski, náði sér á strik og ljósið í myrkrinu var Ármann með sína 4 af 4 í 3-stiga skotum.  Annars vorum við alveg flatir og Keflavík rúllaði yfir okkur.  Við höfum EKKI efni á að mæta aftur svona í leik!! 

Við erum orðið ansi hávaxið lið og það hljótum við að ætla reyna nýta okkur.  Rýnum aðeins í lykilmenn Stjörnumanna og hæð þeirra:

(í þessum skrifuðu orðum liggur síða KKÍ niðri og því ekki hægt að nálgast tölur en ég reyni að vera á vaktinni í dag og set þær inn í þennan pistil þegar þær koma)

Leikmaður:                      hæð:                Stig:    Fráköst:           Stoðsendingar

Justin Shouse                  181                  19,1     4,4                   5,8

Jovan Zdravevski             198                  15,0     6,6                   2,9

Renato Lindmets             ca 200             17,1     7,6                   2,6

Marvin Valdimars             198                  12,4     6,0                   1,8

Kjartan Kjartans               191                  6,3       1,8                   1,0

Fannar Helgason             202                  8,9       6,0                   1,8

 

Okkar lykilmenn:

Páll Axel Vilbergsson         197                  15,0     6,0                   2,6

Ólafur Ólafsson                194                  10,4     4,8                   2,6

Ryan Pettinella                 206                  14,7     11,2                 1,7

Mladen Soskic                   202                  13,3     3,8                   3,0

Nick Bradford                     200                  8,8       5,5                   6,0

Ómar Sævarsson               198                  7,8       6,8                   0,9

Þorleifur Ólafsson             192                  9,6       3,2                   3,5

 

Meðalhæð lykilmanna Stjörnunnar er 195cm en okkar manna 198cm  en skv. mínum kokkabókum þá á hæð að teljast til tekna og hvað þá þegar út í úrslitakeppni er komið.

Fyrirfram tel ég Óla vera okkar lykilmann því ég held að hann muni fá það hlutverk að dekka Justin Shouse.  Á góðum degi er Justin frábær leikmaður en hefur ekki náð sér eins vel á strik á þessu tímabili eins og oft áður að mínu mati.  Hann var lélegur á móti okkur um daginn en hefur stigið upp að undanförnu, eins og allt Stjörnuliðið (fyrir utan óvænt tap á móti kanalausum, föllnum Hamarsmönnum í lokaumferðinni….)  Óli hefur allt sem góðan varnarmann þarf að príða, m.a. hæð og styrk en það hefur hann umfram Justin.  En Justin er hokinn af reynslu en það sama verður svo sem ekki sagt um Óla og því þarf hann að hafa hausinn rétt stilltan!  Ef Óli heldur Justin í skefjum þá mun það auðvelda okkur framhaldið mjög!

Ryan er að mínu mati besti stóri maður deildarinnar og sérstaklega varnarlega.  Ef hann fær boltann á réttum stað í sókninni þá getur hann verið mjög hættulegur eins og við höfum margoft séð.  En við höfum klárlega vinninginn með hann á móti Limgrets en sá leikmaður er reyndar góður, bara ekki næstum því eins góður eins og Ryan á sínum eðlilega degi.

Jovan lendir oft í vandræðum þegar hann fær stóran varnarmann á sig og væntanlega mun Mladen sjá um hann.  Mladen er þvert ofan í orð sumra spekinga áður en hann kom, hörku varnarmaður og á að geta haldið Jovan niðri.  Jovan er ekki þekktastur fyrir varnarleik sinn og á Mladen að geta nýtt sér það en hann hefur heldur betur náð sér á strik eftir bikarúrslit, fyrir utan magaskellinn á móti Keflavík!  En á móti Fjölni t.d. var hann frábær og hitti m.a. úr 7 af 9 3-stiga skotum sínum sem er auðvitað frábært!  Ég myndi því segja að við höfum vinninginn í þessu einvígi.

Ætli Stjörnumenn setji ekki Fannar Helgason til höfuðs Nick Bradford??  Ef ekki, þá mun væntanlega einhver mun minni leikmaður fá það hlutverk og Nick er nú eldri en tvæ vetur í bransanum og mun pottþétt nýta sér það.  Nick kom eins og við mátti búast þar sem hann hafði ekki leikið í nokkra mánuði, ekki í sínu besta formi og mun eflaust bæta það til endaloka tímabilsins, hvenær sem þau verða….  Nick var víst skelfilegur á móti Keflavík, rétt eins og nánast allir aðrir.  En í hinum leikjunum hefur hann staðið sig og vel það en á samt helling inni.  Þegar komið er út í alvöruna þá sýnir Nick ávallt sinn rétta mann og mun pottþétt stíga upp.

Paxel er einn af skeinuhættari sóknarmönnum deildarinnar þegar hann er í sínum rétta gír og í hann ætti hann alveg að geta verið kominn því honum hefur vaxið ásmegin að undanförnu, enn og aftur fyrir utan Keflavíkurleikinn….  Ég býst við að hann fái Marvin Valdimarsson á sig en veit ekki hvort hann muni sjálfur dekka Marvin sem getur líka verið mjög skeinuhættur sóknarmaður og var með stigahærri leikmönnnum síðasta tímabils.  Þegar ég byrjaði að skrifa þennan pistil í nótt þá var viðtalið við Paxel ekki komið en það er fróðlegt eins og lesendur heimasíðunnar vita væntanlega nú þegar, ef þið eruð ekki búin að lesa það þá hvet ég ykkur til þess.

Ómar mun væntanlega koma af bekknum eins og undanfarið og þarf hann eins og aðrir, að stíga vel upp.  Það vantar aldrei baráttuna í Ómar og virðist skærgult Grindavíkurhjarta berjast um í brjósti hans en hann virðist vera orðinn Grindvíkingur í húð og hár og það er æðislegt.  Ómar getur dottið í þann gír að hirða öll fráköst sem í boði eru og lauma nokkrum körfum sömuleiðis og væntanlega verður hann í gírnum með hvatningaróp móður sinnar í farteskinu J

Ég veit ekki hvernig staðan er á Lalla en ekki er mörgum blöðum um það að fletta að hann er okkur mjög mikilvægur, ekki síst þar sem Helga mun væntanlega ekki njóta meira við í búning.  Lalli er baráttuhundur af Guðsnáð og við skulum vona að hann sé búinn að jafna sig nægilega vel á meiðslunum svo hann geti spilað með af fullum krafti.

Björn Steinar, Helgi Björn og Ármann þurfa allir að nýta þær mínútur sem þeir fá til hins ýtrasta!  Bjössi hefur ekki hitt vel fyrir utan 3-stiga línuna eftir áramót en hann hefur sýnt að hann getur dottið í gírinn og eigum við ekki bara að segja að tími sé kominn á hann að láta ljós sitt skína??  Ármann virðist vera eins og jó jó oft á tíðum, annað hvort funheitur eins og á móti Keflavík á þessu tímabili (9/9 í 3-stiga skotum á móti Kef í vetur, ótrúlegt…) eða bara „way off“…  Ármann virðist vera nettur stemningskarl og er ekki stemningin í hámarki þegar út í úrslitakeppni er komið??  Helgi Björn nýtist best í varnarvinnunni en hann hefur oft sýnt í vetur að hann getur staðið vel upp í hárinu á sér mun stærri mönnum.  Hann er greinilega mjög sterkur og mun pottþétt fá mínútur til að slökkva í andstæðingnum og þær mínútur verður hann að nýta.

Leikmenn eru alltaf mikilvægasti þáttur kappleikja, næst kemur þjálfarateymi.  Síðast en oft á tíðum ekki síst, eru áhorfendur/aðdáendur mjög mikilvægur hlutur í púsluspilinu.  Við höfum oft sýnt hvers við erum megnug á pöllunum og þurfum að sýna okkar rétta andlit líka núna.  Nú er spennan að ná hámarki og má pottþétt búast við mikilli skemmtun og því eru allir sem ætla sér á leikinn, hvattir til að draga 1-2 með sér og smita þá af þessari skemmtilegu bakteríu sem körfuboltinn er.  Spekingarnir spá okkur ekki áfram en ég tel okkur vera betra lið en Stjarnan og við eigum að fara í gegnum þá.  Með hverjum leiknum sem líður mun leikur liðsins batna þar sem breytingar áttu sér stað ekki fyrir svo löngu svo hver veit???

Allir að mæta á leikinn og öskra:

ÁFRAM GRINDAVÍK!!