„Aukum jákvæðni innan okkar vébanda“

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Yngvi Páll Gunnlaugsson tók við sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Grindavíkur núna í sumar. Óhætt er að segja að Yngvi kom vel inn í starfið hér í Grindavík en hann hefur mikla reynslu úr þjálfun og hefur þjálfað nokkur félög í meistaraflokki. Hann kemur því með drjúga reynslu inn í þetta starf hér í Grindavík. Við fengum Yngva til að svara nokkrum spurningum um sinn bakgrunn, starfið í yngri flokkum hér í Grindavík og framtíð körfuboltans.

Þú tókst við sem yfirþjálfari körfuknattleiksdeildar Grindavíkur núna í lok sumars. Hvernig hafa fyrstu mánuðir verið í þessu nýja starfi?
Ég tók til starfa frekar seint í sumar svo fyrstu mánuðirnir hafa verið mjög annasamir og lærdómsríkir, en jafnframt ánægjulegir. Hér gott fólk og mikill metnaður þannig að ég hef notið mín vel. Ég hafði gegnt sambærilegu starfi hjá Vestra á Ísafirði en þar var ég í fullu starfi ásamt því að vera meistaraflokksþjálfari karla. 

Förum aðeins yfir þinn bakgrunn: Hvaðan kemur þú, hverjir eru fjölskylduhagir og hver er þinn bakgrunnur í körfuboltanum?
Eiginkona mín er Guðrún Helga Guðmundsdóttir, borin og barnfæddur Grindvíkingur og saman eigum við þrjú yndisleg börn. Sjálfur ólst ég upp fyrstu árin á höfuðborgarsvæðinu en flutti vestur á Tálknafjörð þegar ég var 11 ára. Þar má segja að ég hafi smitast af körfubolta bakteríunni sem ég hef verið haldin allar götur síðan og leitt mig víða. Ég er Valsari að upplagi en auk þess að hafa verið í Val þá hef ég líka verið í Skallagrími, Haukum, Breiðabliki, KR, Vestra og Njarðvík. 

Hvað finnst þér vera vel gert í yngri flokka starfinu hjá Grindavík og hvað langar þig til að bæta?
Helsti styrkur félagsins er hefð, þekking og stolt. Við höfum verið svo heppin að hér hafa margir góðir þjálfarar komið að málum löngu áður en ég kom inn í félagið og margir góðir leikmenn, og eru enn. Við þurfum fyrst og fremst að halda áfram þeirri góðu vinnu sem hefur verið unnin undanfarna áratugi. Við verðum að stuðla að jákvæðni innan okkar vébanda og aðlaga okkur að aðstæðum þar sem aukin áhersla hefur verið á líkamlega þáttinn og auknar tækniæfingar, sér í lagi hjá eldri iðkendum. 

Hvernig hefur samstarfið með þjálfurum deildarinnar í haust gengið?
Við erum með skemmtilega blöndu af reyndum þjálfurum og einnig yngri og reynsluminni sem eru mjög áhuga- og samviskusamir í sínum störfum. Samstarfið hefur verið ánægjulegt, skemmtilegt og mikil metnaður fyrir þeirri vinnu sem er í gangi.

Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir þeim árgögnum sem eru að koma upp núna á næstu árum hjá félaginu? Eru margir efnilegir leikmenn á leiðinni upp í meistaraflokka félagsins?
Það eru margir mjög áhugaverðir árgangar að koma upp, bæði fjölmennir og getulega góðir. Ég kvíði allavega ekki framtíðinni fyrir hönd félagsins. Nú þegar erum með unga og efnilega leikmenn, bæði stráka og stelpur, sem eru annaðhvort að spila stórt hlutverk í meistaraflokki eða styttist í að þeir fari að banka á dyrnar.

Hvernig metur þú aðstöðuna sem félagið býr yfir? Sérð þú svið í aðstöðu félagsins sem þyrfti að bæta í til að efla enn frekar íþróttastarf félagsins?
Aðstaðan sem við búum yfir í Grindavík er ein sú besta sem þekkist á landinu, ef ekki sú besta til að stunda körfubolta. Í raun er ég ennþá að reyna að átta mig á þeim möguleikum sem aðstaðan býður upp til þess að við getum hlúð að okkar iðkendum eftir fremsta megni. Það eru margar hugmyndir uppi hvernig við getum komið starfinu á þann stall sem við viljum hafa það. Kannski má segja að við höfum tekið eitt skref aftur á bak til að geta tekið tvö áfram á næstu árum.

Hver eru þau heilræði sem þú myndir vilja gefa ungum og metnaðargjörnum íþróttamönnum sem vilja skara fram úr?
Ungur leikmaður þarf að sýna aga, ábyrgð, jákvæðni og vinnusemi. Þannig eru þeim allir vegir færir.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?
Hér í Grindavík búum við við ótrúleg forréttindi og tækifæri, sér í lagi þegar kemur að íþróttaiðkun barna. Stuðningur bæjarins og fyrirtækja við íþróttir er að einhverju leyti einstakur á landsvísu og því getum við verið stolt af. Þannig vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem koma að starfinu á einn eða annan hátt kærlega fyrir og sendi þeim bestu kveðjur.