„Ánægður með samsetninguna á hópnum“

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

„Þetta er vissulega búið að vera mjög sérstakur tími. Það eru ekki búnir að vera leikir í gangi sem maður skilur ágætlega, en það versta í þessu var að það mátti ekkert æfa, hvorki í körfu né líkamsrækt,” segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari meistarflokks karla hjá Grindavík, þegar hann er spurður hvernig haustið hefði verið hjá liði Grindavíkur.  “Ég veit að konan mín tók allavega þetta æfinga- og keppnisleysi í sátt þegar hún sá kræsingarnar sem ég bauð fram um kvöldmatarleytið í þessari pásu.”

Rætt var við Daníel Guðna í jólablaði Körfuknattleiksdeildar UMFG sem kom út núna fyrir áramót.

– Hverjar eru væntingarnar fyrir tímabilið sem er aðeins farið af stað?

Vissulega er það að vera meðal efstu fjögurra liða þegar að deildarkeppninni lýkur, enda teljum við okkur vera með lið til þess. Úrslitakeppnin verður svo vonandi á sínum stað og það eru öll lið með sama markmið þegar komið er þangað. Svo er einnig rosalega skemmtilegt að fara langt í bikarkeppninni, en það gekk ekki alveg síðastliðið tímabil. Þannig það væri ljúft að fara aftur á parketið í Laugardalshöllinni og ná í bikarinn.

– Ertu sáttur með leikmannahópinn sem þú ert með í höndunum núna í vetur?

Já, ég er gríðarlega ánægður með samsetninguna á hópnum og hvernig okkur hefur tekist til að fylla þær leikstöður sem leikmenn skildu eftir sig á síðasta tímabili. Eric og Joonas hafa komist vel inn í hópinn og Kristinn sömuleiðis. Það er mikilvægt að vera með gott jafnvægi í liðinu og tel ég að það hafi tekist hjá okkur. 

– Hvernig leikstíl sérðu fyrir þér að þróa hjá liðinu í vetur og á næstu árum?

Klassískt svar er að spila hraðan og skemmtilegan bolta. Við munum spila nokkuð hraðan bolta en viljum hafa sömuleiðis yfirvegaðan leik þar sem við bindum endahnút á okkar sóknir með góðum ákvörðunum. Ég vil þróa sömuleiðis stífan og samstilltan varnarleik með því markmiði að koma andstæðingum okkar í óþægilegar stöður. 

– Hvaða leikmenn sérðu fyrir þér að muni koma á óvart hjá liðinu í vetur eða vera í stærra hlutverki?

Það eru margir sem koma vissulega til greina, en ég býst við að áhorfendur fái að sjá styrkleikana sem Kristinn kemur til að bæta við leik liðsins. Einnig er Björgvin leikmaður sem á eftir að springa út í vetur í gulu, ég er sannfærður um það. 

– Nú voru þrír eldri leikmenn að draga fram skóna í Jóa, Lalla og Ómari. Hvað kom til að þeir eru mættir á gólfið á ný?

Við ungu strákarnir erum vissulega allir góðir félagar og ég suðaði raunverulega í konunum þeirra til þess að fá þá til að vera með í vetur. En að öllu gríni slepptu, þá búa þeir yfir reynslu og þekkingu, hvað þarf til þess að vinna og ná árangri, sem er ekki hægt að kaupa. Ég vildi fá það frumefni inn í hópinn, og þeir hafa enn margt til málanna að leggja, bæði á parketinu og inn í hópinn. 

– Hvað getur þú sagt okkur um erlendu leikmennina sem sömdu við liðið fyrir tímabilið?

Við vorum með nokkuð þekkta stærð í Eric Wise og við vitum hvað hann getur. Hann var klárlega þreyttur í okkar fyrsta leik gegn Hetti, enda nýlentur, komandi frá Vesturströnd Bandaríkjanna. Hann er ekki sneggsti leikmaðurinn á gólfinu, en gríðarlega hæfileikaríkur og góður að skora boltanum þegar hann er að eiga jafnvel við stærri leikmenn. Einnig kemur honum vel saman við leikmenn liðsins og er góður talandi í honum varnarlega, sem ég er mjög hrifinn af. Joonas getur leyst miðherjastöðuna þó svo hann vilji kannski draga sig oftar út og skjóta eða sækja að körfunni þaðan. Hann er fjölhæfur og kemur til með að vera mikil sóknarógn í vetur.

– Nú er búið að vera langt stopp og liðið ekki getað æft mikið í haust sökum covid. Hvaða áhrif heldur þú að þetta muni hafa á liðið, leikmenn og þjálfara?

Vissulega hefur þetta haft neikvæð áhrif heilt yfir. Það getur líka verið þreytandi missa taktinn í öllu sem snýr að körfunni en það er þó verra ef menn missa meira en það, vinnu, þrek og einnig getur þetta haft mjög mikil áhrif á líðan. Jákvæða í þessu öllu saman er að leikmenn sem hafa orðið fyrir smá hnjaski í byrjun tímabils, og voru þeir nokkuð margir, hafa haft góðan tíma til þess að jafna sig. Það er líka gott að byrja hálfgert undirbúningstímabil aftur og eiga rúmlega þrjár vikur í fyrsta leik (þegar þetta er skrifað). Einnig hafa leikmenn og þjálfarar fengið tíma til að hugsa og sinna jafnvel öðrum áhugamálum sínum, eða fundið ný og náð að nýta tíma sinn í eitthvað annað uppbyggilegt og skemmtilegt.

– Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Ég óska þess að allir stuðningsmenn Grindavíkur taki þátt í hverskyns fjáröflunum sem deildirnar hjá UMFG standa fyrir, og styðja þannig við liðið sitt, fyrst það er minna hægt að gera það úr stúkunni. Svo er það bara popp og kók með vinum og fjölskyldu, tvisvar í viku og horfa á streymi frá leikjum okkar í vetur. Við hlökkum til að sýna hvað í okkur býr.